Offita er vaxandi vandamál í vestrænum ríkjum þar sem mikil þyngd getur aukið líkurnar á líffstílstengdum sjúkdómum eins og sykursýki týpu tvö eða hjarta og æðasjúkdómum. Offita getur einnig valdið álagi á stoðkerfi þeirra sem við hana glíma, svo það er til mikils að vinna að hjálpa fólki með offitu.
Í dag er offita álitinn langtímasjúkdómur og við vitum að megrunarkúrar eru ekki þær töfralausnir sem auglýsingar vilja meina. Lífstílsbreytingar á borð við breytt matarræði og hreyfingu eru alltaf besti kosturinn, en í mörgum tilfellum duga þau ekki til.
Því hafa verið þróuð fjölmörg lyf sem geta hjálpað fólki í ofþyngd til að ná stjórn á sínum vanda. Oft eru lyfin þó dýr eða í þróun svo lítil reynsla hefur komist á þau.
Eitt gamalt megrunarlyf, sem kallast phentermine, hefur nú mögulega fengið breyttan tilgang en lyfið hefur hingað til einungis verið notað í skamman tíma. Þegar lyfinu er ávísað á sjúklinga er það yfirleitt einungis notað í 12 vikur, þar sem langtíma notkun er talin geta haft skaðleg áhrif.
Samkvæmt rannsókn sem unnin var við Wake Forest Baptist Medical Center gæti lyfið nú fengið hlutverk sem langtíma lyf við offitu. Í rannsókninni skoðaði rannsóknarhópurinn heilsufar sjúklinga sem höfðu fengið lyfinu ávísað til lengri tíma. Þau mátu áhrif lyfsins á ýmsa hjartatengda þætti, svo sem blóðþrýsting og áhættuna á því að fá hjartaáfall. Lyfið er nefnilega örvandi og því ekki endilega hættulaust að taka það, sé ekki ástæða til.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru að þeir sjúklingar sem tóku lyfið í tvö ár sáu bestan árangur við þyngdartap. Þeir einstaklingar sem tóku lyfið í skemmri tíma sáu einnig árangur en þegar lyfjatöku var hætt var hætta á þyngdaraukningu á ný. Þegar heilsufar þátttakenda var metið í kjölfar langtíma inntöku lyfsins kom í ljós að engin aukin áhætta á hækkandi blóðþrýstingi eða hjartaáföllum, svo dæmi séu nefnd, fylgdi inntöku lyfsins.
Enn sem komið er hefur lyfið ekki verið samþykkt til langtíma notkunar. Fólk ætti því alls ekki að nota það öðruvísi en læknir ráðleggur notkun á því. Þessi rannsókn bendir þó til þess að þarna sé á ferðinni möguleg lausn til að bæta líf og heilsu þeirra sem glíma við offitu.