Þó plast sé neikvætt í þeim skilningi að það safnast upp í umhverfinu okkar hefur það góð áhrif á öðrum vígstöðvum. Sem dæmi leiðir plastpökkun matvæla til lengri endingartíma sem þýðir minni matarsóun og þar af leiðandi minni orkunotkun í að framleiða vöru sem verður aldrei nýtt.
Matvæli sem eru pökkuð í plast eru létt til flutninga samanborið við t.d. gler, sem á sama hátt þýðir minni orku sem fer í að flytja matvæli milli landa. En allt þetta einnota plast sem við notum í þessum tilgangi safnast svo upp eftir að hafa þjónað tilgangi sínum.
Til að sefa umhverfiskvíðann innra með okkur getum við endurunnið allt þetta einnota plast sem fellur til. Það er vissulega betra en að setja plastið beint í ruslið, en leysir þó ekki vandann. Einnota plast er enn framleitt í allt of miklu magni vegna þess að það er notað í allt of miklu magni.
Þegar plast er endurunnið er yfirleitt ekki hægt að nýta nema 30% af því til að búa til nýjan hlut úr plasti. Líftími plastsins er líka stuttur í þeim skilningi að það er ekki hægt að endurvinna það oft. Til að fá sem mest útúr jákvæðum eiginleikum plastsins væri því best að geta endurunnið plastið 100% og endalaust.
Plast er samsett úr samfléttuðum kolvetniskeðjum. Til að gefa plastinu svo ákveðna eiginleika eins og sveigjanleika eða lit eru aukahópar hengdir á kolvetnissameindirnar.
Ástæða þess að við nýtum svo lítið hlutfall plastsins við endurvinnslu er vegna allra þeirra auka sameinda sem eru hengd á keðjurnar. Þær eru mismunandi og því erfitt að losa sameindirnar frá kolvetninu.
Rannsóknarhópur við Lawrence Berkeley National Laboratory birti nýlega rannsókn í Nature þar sem þau lýsa smíði plasteininga sem auðvelt er að meðhöndla með tilliti til endurvinnslu. Hugmyndin er að allir þessir aukahópar sem gefa plastinu ákveðna eiginleika hanga á kolvetniskeðjunni með efnatengjum sem er auðveldara að aftengja.
Efnatengin eru þannig að keðjurnar losna auðveldlega við aukahópana og í sundur þegar plastið er lagt í sýru. Öfugt við önnur plastefni sem notuð eru í heiminum er auðvelt að losa kolvetniskeðjurnar við aukahópana og þegar það hefur verið gert er auðvelt að móta keðjurnar með nýjum aukahópum til að búa til nýja gerð af plasti.
Mögulega verður hægt að endurvinna allt plast sem búið er til með þessum hætti, endalaust. Ef það verður að veruleika getum við notið þeirra jákvæðu eiginleika sem plastið gefur okkur, minni matarsóun, léttari vörur o.s.fr. án þess að plastið safnist upp í umhverfinu okkar.