Á morgun, þriðjudag, heldur Apple sinn árlega september-viðburð þar sem nýir símar og önnur snjalltæki verða kynnt. Viðburðurinn fer fram í Steve Jobs Theater og hefst kl. 17. Hægt verður að fylgjast með viðburðinum í straumi á apple.com og helstu tækniblogg verða einnig með beina textalýsingu.
Nýir símar
iPhone 11 (eða mögulega 11R, Fer eftir orðrómi) mun leysa iPhone XR af hólmi. Sá sími var vinsælastur af þeim símum sem Apple kynnti fyrir ári og því mikilvægt að arftakinn sé vel heppnaður. Hugsunin með iPhone 11 nafninu er þá að þetta sé iPhone-inn, sá sími sem hentar flestum og flestir kaupa. Hönnun verður sú sama og á XR og skjárinn 6.1 tommur eins og forverinn.
XR er með eina myndavél á bakhliðinni en þær verða tvær í nýja símanum, eins og í X / XS útgáfunum. Nýja myndavélakerfið mun bjóða upp á aðdrátt eins og í XS og XS Max. Annað sem er líklegt er öflugri örgjörvi, meira minni og nýir litir.
Arftakar iPhone XS / XS Max eru iPhone 11 Pro og 11 Pro Max, ef eitthvað er að marka orðið á tæknigötunni. Eins og með iPhone 11 þá helst hönnunin nánast óbreytt fyrir utan mun stærri myndavéla bungu sem er nú með þremur myndavélum. Skiptar skoðanir eru um það hvað fæst með nýja myndavélinni, mögulega betri aðdráttur, bætt Portrait Mode eða meiri gæði við léleg birtuskilyrði. Þá er talið að upplausnin verði aukin. Face ID verður endurbætt og mun virka þegar síminn er á hlið eins og í iPad Pro.
Apple Watch 5
Síðustu ár hefur Apple notað september-viðburðinn til að kynna uppfærð snjallúr og er því líklegt að Apple Watch 5 verði kynnt. Síðasta úr var endurhannað frá grunni og því er nær öruggt að Apple Watch 5 verður hógvær uppfærsla með áherslu á innvolsið. Meira minni, öflugri örgjörvi og betri rafhlöðuending.
Apple TV og þjónustur
Apple TV var síðast uppfært fyrir tveimur árum. Apple kynnti svo sjónvarpsþjónustuna Apple TV+ í mars á þessu ári og er áætlað að hún fari í sölu í haust. Það er því líklegt að nýjar sjónvarpsgræjur verði kynntar samhliða því að TV+ fari í loftið.
Stóra spurningin er í raun hvort Apple noti september-viðburðinn til að kynna Apple TV eða kynni það í október á sérviðburði. Sama gildir um Apple Arcade leikjaþjónustuna. Leikir úr þjónustunni virka á öllum iOS tækjum og því gæti viðburðurinn á morgun hentað vel til að setja þjónustuna í loftið.
Apple Tag
Síðustu mánuði hafa fundist vísbendingar í kóða frá Apple um að fyrirtækið ætli sér að kynna nýtt þráðlaust staðsetningartæki, sambærilegt við Tile sem hægt er að festa á hluti eins og hjól, töskur, lyklakippur o.s.frv. Slík tæki virka þannig að þitt tæki talar við tæki annarra yfir bluetooth og þau senda upplýsingar um staðsetningu týnda tækisins yfir netið.
Það hefur hamlað útbreiðslu slíkra tækja að ef það eru engin önnur tæki í nágrenninu þá finnur þú ekki þitt tæki. Í ljósi vinsælda iPhone og annarra Apple tækja þá ætti þeirra Tag net að vera mun þéttara og útbreiddara en hjá samkeppnisaðilum. Ekkert er þó vitað hvort og hvenær Apple mun kynna sitt Tag.
Allt hitt
Aðrar vörur sem orðrómur er um að séu á leiðinni í sölu eru uppfærð grunntýpa af iPad sem fær stærri skjá, 10.2 tommur í stað 9.7 tomma. Einnig er gert ráð fyrir því að kynnt verði endurhönnuð Macbook Pro tölva með 16 tommu skjá og nýju lyklaborði. Að lokum er er talið að Apple HomePod fái aðeins meiri TLC, fái annaðhvort viðbótar vörur á borð við HomePod mini eða verði jafnvel endurhannaður.
Þó er líklegast að Apple noti sviðið á morgun eingöngu fyrir iPhone og Apple Watch og stýrikerfið iOS13 og allar þessar „annað“ vörur fái sér kynningu í október. Kjarninn mun fylgjast vel með viðburðinum á morgun og færa fréttir af því markverðasta. Tæknivarpið á föstudaginn fer svo vel yfir viðburðinn.