Margir kannast við það að fá bólusetningu við inflúensu á hverju ári. Það kann að hljóma furðulega vegna þess að sumar bólusetningar, eins og mislingabólusetningu, fáum við þegar við erum ungabörn og hún endist áratugum saman.
Ástæðan fyrir þessu er að inflúensa er í fyrsta lagi sjúkdómur sem margar veirur valda og í öðru lagi þá breytast þessar veirur mjög hratt. Þess vegna er þörf á nýrri inflúensubólusetning á hverju ári.
Það myndi þó óneitanlega spara heilbrigðiskerfinu og okkur almenningu heilmikið (bæði kostnað og fyrirhöfn) ef ein bólusetning gegn inflúensu væri nóg. Reyndar hefur verið unnið að því á mörgum stöðum í heiminum og nýlega skrifaði ritstjórn Hvatans grein um bóluefni sem búið er til úr RNA sameindum.
Fleiri hafa þó unnið að þessu göfuga markmiði og í lok oktróber birtist grein í Science þar sem rannsóknarhópur við Scripps Research Institute, í samstarfi við fjölmargar stofnanir, gat notað bóluefni á mýs með því frábærum árangri.
Prótínið sem bóluefnið beinist að heitir Neuraminidase, og er ensím sem veiran notar til að dreifa sér úr frumum hýsilsins. Þetta sama prótín er lyfjamark veirulyfsins Tamiflu sem margir þekkja.
Hingað til hefur fáum dottið í hug að nota þetta prótín sem bóluefnamark. Líklega vegna þess að þetta prótín er ekki það fyrsta sem líkaminn kemst í snertingu við, við veirusmit. Þetta prótín starfar á seinni stigum veirusýkingarinnar. Þegar rannsóknarhópurinn prófaði bóluefnið á músum sem voru sýktar með 12 mismunandi veirustofnum, lifðu allar mýsnar af. Í þessari rannsókn var bóluefnið notað sem lyfjagjöf eftir smit og mýsnar lifðu allar af þrátt fyrir að meðhöndlunin ætti sér ekki stað fyrr en 72 klst eftir smit.
Enn sem komið er á eftir að gera frekari rannsóknir til að sýna fram á virkni efnisins í manninum. Það má þó leiða að því líkur að hér gæti verið framtíðar inflúensubóluefni eða veirulyf á ferðinni.
Umfjöllun birtist fyrst á Hvatanum.