Þegar farið er um öræfi Austurlands á góðviðrisdegi má stundum líta stórar hjarðir tignarlegra hreindýra fara um og er þá vissara að fara varlega – hreindýr eru stygg og greina hið smæsta hljóð og eru snögg að forða sér ef þau verða vör við nærveru manna. Best að hafa vindinn í fangið vilji menn virða þessi tígulegu dýr fyrir sér í þeirra heimavist, fara hljóðlega og notast við góða aðdráttarlinsu vilji menn fanga augnablikið.
Hreindýrin íslensku vekja virðingu og aðdáun, og sumir vilja njóta þess að virða þau fyrir sér í sínu eiginlega umhverfi, öræfum Austurlands, þar sem þau hafa þegar öðlast þegnrétt þrátt fyrir mun styttri búsetu í landinu en við mannfólkið; hjá öðrum kviknar veiðieðlið og eru hreindýraveiðar vinsælt sport orðið, þótt upphaflega hafi hreindýrin verið flutt til landsins til að verða hluti af lífsviðurværi mannsins. Það má undrun sæta að hreindýrin skuli hafa öðlast svo sterkar rætur í þjóðarsálinni miðað við hversu stutt þau hafa átt heima á Íslandi – og alls ekki sjálfgefið að þau myndu lifa af óblíð náttúruöfl, vetrarhörku, kulda og gróðurleysi.
Sitthvað hefur verið ritað og gefið út um hreindýr á Íslandi þótt flest sé það takmarkað og komið nokkuð á aldur. Skylt er að nefna þátt Helga Valtýssonar í því sambandi, en hann er að líkindum sá höfundur íslenskur sem mest hefur skrifað um hreindýr á Íslandi, en greinar hans og bækur telja amk. fimmtán titla og ber þar hæst bókina Á hreindýraslóðum, sem kom út 1945 og er ekki einasta greinargóð lýsing á hreindýrum á öræfum Austurlands heldur einnig sannkallaður óður til gjörvallrar náttúrunnar; má hér geta þess að rithöfundurinn Andri Snær Magnason vekur í nýútkominni bók sinni, Um tímann og vatnið, sérstaka athygli á ást og virðingu Helga til náttúrunnar og telur þessar tilfinningar undirstöðu farsælla samskipta manns og náttúru. Það má til sanns vegar færa; það fer ekki á milli mála að hreindýrin kalla á lotningu ekki einasta fyrir sjálfum sér sem tegund heldur einnig fyrir allan þann heim öræfa, heiða og fjalla sem er þeirra.
Að öðru leyti sýnist á heimildaskrá að meirihluti heimilda sé nokkuð við aldur, þótt þar megi einnig finna áhugaverðar undantekningar og má kannski vekja þar sérstaka athygli á fróðlegri og skemmtilegri bók Guðna Einarssonar sem út kom 2014: Hreindýraskyttur. Líflegar og fræðandi frásagnir af hreindýraveiðum.
En hvað um það; nú hefur Sögufélag heldur betur bætt úr og gefið út mikið og veglegt rit, ríkulega myndskreytt og vandað að frágangi og útliti, sem vel má kalla heildarrit um sögu hreindýra á Íslandi frá upphafi til vorra daga. Heiðurinn öðrum fremur af þessu afreki á höfundurinn, Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Austurlandi; hún er doktor í sagnfræði og hefur ritað fræðigreinar um samband manna og náttúru á Íslandi og er Öræfahjörðin stærsta verk hennar á því sviði. Hún hefur sem vænta má notið aðstoðar ótal sérfræðinga og áhugamanna um hreindýr og vistkerfi þeirra og skulu þar helstir taldir ritstjóri bókarinnar, Kristín Svava Tómasdóttir, og útgáfustjórinn Brynhildur Ingvarsdóttir en auk þeirra hafa komið að útgáfunni hönnuðir, ljósmyndarar, safnafólk og sagnamenn sem allir hafa stuðlað að því að Öræfahjörðin er eins vel úr garði gerð og kostur er. Bókin ber að öllu leyti með sér að vera hin eigulegasta.
Bókinni er skipt í sex hluta og er frá því greint í inngangi sem hér segir: Fyrsti hlutinn er almennur inngangur um hreindýr og lífshætti þeirra og þátt mannsins í sögu þeirra, stuttur en fróðlegur.
Í öðrum hluta víkur sögunni til Íslands og greint er frá innflutningi hreindýra til landsins á átjándu öld og hvaða hugmyndir þar réðu ferð og hverjar viðtökur hreindýrin fengu í upphafi hér á landi. Það er athyglisvert að það er að frumkvæði danskra yfirvalda að innflutningur hreindýra á sér stað og er ætlun þeirra að draga úr áhrifum harðinda hér á landi og auka fjölbreytni og bæta afkomumöguleika í landbúnaði.
Í fjórða hluta er komið inn á fyrri helming tuttugustu aldar en þá er eins og löggjafinn hrökkvi upp af blundi og sjái að ekki hafi allt orðið sem skyldi í sambúð landsmanna við þessa innfluttu ferfætlinga og reynt er að rétta stefnuna með lagasetningu og reglugerðum. Þá spratt einnig upp lífleg umræða um tilvist hreindýra hér á landi og er henni gerð skil í þessum kafla, eins og umræðan um nýtingu hreindýra og útbreiðslu þeirra, en þarna voru menn að átta sig á því að býsna lítið var í raun vitað um hreindýrin, eðli þeirra og náttúru og sáu að brýnt væri að bæta úr því þekkingarleysi. Niðurstaða þeirrar umræðu var að hafið var eftirlit með hreindýrahjörðum og gætt að velferð þeirra í ríkari mæli en áður hafði verið.
Í fimmta hluta er greint frá þróun mála á seinni hluta tuttugustu aldar og greint frá því hvernig skipulagi er komið á hreindýraveiðar.
Niðurlag sögunnar er svo rakið í sjötta hlutanum og lýkur þeim hluta með kafla þar sem horft er yfir sögusviðið og niðurstöður dregnar saman.
Þegar farið er yfir svo vítt svið og efnistökin jafn víðfeðm og hér má sjá, nýtist almennum lesanda lesturinn ef til vill best í smáskömmtum og er vel og smekklega tekið tillit til þess í uppsetningu og frágangi bókarinnar. Hér úir og grúir af fróðlegum og oft bráðskemmtilegum frásögnum í innskotsköflum þar sem er ýmist að finna beinharða sagnfræði sem hefði að líkindum farið verr um í meginmáli eða frásagnir veiðimanna eða tilvitnanir í skáldskap, enda hafa hreindýrin víða komið við í sambúð manns og náttúru. Þessir innskotskaflar auka gildi bókarinnar og gera hana að skemmtilegum félaga á frístundum, svo ekki sé minnst á hversu notalegt það getur verið að gæða sér á einum og einum kafla undir svefninn.
Efnistök Unnar Birnu einkennast af því að hún er sagnfræðingur og þarf engan að undra. Hitt er athyglisvert að tök hennar eru einnig þverfagleg. Þannig fær lesandi að kynnast líffræði og vistfræði hreindýra og þegar kemur að hinum mannlega þætti og samskiptum dýra og manna er ekki komið að tómum kofanum og má jafnvel líta svo á að frásögnin verði mannfræðileg öðrum þræði. Unnur Birna hefur víða leitað fanga meðal bænda á Austurlandi sem lengi hafa lifað í návígi við hreindýrin sem og veiðimanna; öll sú frásögn einkennist af virðingu fyrir samskiptum manns og náttúru og Unnur Birna hikar ekki við að lyfta fram hagsmunum náttúru og vistkerfis og skyldi kannski engan undra.
Veiðimenn og bændur geta yfirleitt sjálfir komið fyrir sig orði, náttúru og vistkerfi veitir ekki af hverjum þeim talsmanni sem vekur athygli á þeirra hagsmunum.
Bókin veitir þar með mikilvægan og verðmætan fræðilegan skilning á umræðu sem er ærið áberandi í okkar nútíma og varðar fyrst og fremst spurninguna sem einfaldlega snýst um hvort nýta eigi náttúru í þágu manns eða vernda í þágu ferðaþjónustu og framtíðar. Unnur Birna fjallar um þetta í lokakafla bókarinnar þar sem hún horfir yfir sviðið og lítur til framtíðar. Þar bendir hún á hið athyglisverða, að mestöll umræða um tilvist hreindýra á Íslandi hefur tekið mið af þörfum sauðfjárbúskapar og hafa þar hreindýrin lotið í lægra haldi; þá hafi það alveg frá upphafi verið slegið útaf borðinu að Íslendingar skyldu gerast hreindýrabændur – hirðingjabúskapur var aldrei og hefur aldrei verið talinn henta íslenskri samfélagsgerð eða íslenskum búskaparháttum og athyglisvert að þetta viðhorf skuli ekki hafa verið gagnrýnt fyrr en nú á síðustu árum, að farið er að ræða af alvöru möguleika á hreindýrabúskap þar sem nýta mætti afurðir hreindýra á mun fjölbreyttari hátt en nú er. Verður vissulega fróðlegt að fylgjast með framhaldi þeirrar umræðu, ekki síst í ljósi þeirrar þekkingar sem finna má í bók Unnar Birnu.
Þá má geta þess að Unnur Birna hefur í nýlegri grein í Ritinu, tímariti Hugvísindastofnunar Háskóla Íslands, gert enn betur grein fyrir ástinni á öræfum í merkingunni hrifning af náttúru miðhálendis Íslands og ber þar saman skrif tveggja náttúruunnenda, fyrrnefnds Helga Valtýssonar og Guðmundar Páls Ólafssonar og hvernig viðhorf þeirra einkennast af persónulegu sjónarhorni, markast af áhrifum af vestrænni náttúrusýn þar sem lögð er áhersla á gildi villtrar náttúru og mikilvægi þess að hún sé vernduð, ekki aðeins sjálfs sín vegna, en ekki síður mannsins. Í þessu ljósi er framlag Unnar Birnu til umræðu í samtíma um stofnun miðhálendisþjóðgarðs ekki síður mikilvæg; Öræfahjörðin er í því ljósi nauðsynleg lesning. Þá má einnig minna áhugasama á aðra bók Unnar Birnu þar sem hún fjallar einnig um viðhorf manns til náttúru en útfrá eilítið öðru sjónarhorni – það er bókin Þar sem fossarnir falla, sem út kom fyrir sléttum tíu árum og tekur einnig á tvíbentu sambandi Íslendinga við náttúru landsins.
Eina meinlega villu fann ég við lestur Öræfahjarðarinnar. Á bls. 129 er vitnað í Hákon Aðalsteinsson frá Vaðbrekku í Hrafnkelsdal, þekktan hreindýraveiðileiðsögumann og í því sambandi greint frá þeirri skemmtilegu staðreynd að systir hans hafi verið fyrsta konan sem felldi hreindýr á Íslandi. Hún er hér nefnd Sigríður, en það er nafn eiginkonu Aðalsteins, eldri bróður Hákonar, en í sömu andrá er einnig vitnað til þeirra. Hið rétta er að systir Hákonar er Sigrún, ávallt kölluð Sída, og hún er fyrsta konan sem skaut hreindýr á Íslandi; er því hér með haldið til haga í þeirri von að þetta atriði verði leiðrétt í næstu útgáfu Öræfahjarðarinnar.