Jón Þór Ólafsson þingmaður Pírata hefur skapað spil, Þingspilið, sem byggir á reynslu hans við að starfa á Alþingi þar sem leikmenn geta spilað formann flokks á þingi sem keppist við að koma sem flestum þingmönnum í eigin vasa. Í spilinu er til að mynda hægt að styðja við málefni, setja lögbann á hneykslismál og stinga svo hina formennina í bakið. Jón Þór hefur safnað fyrir útgáfu spilsins á Karolina Fund og þeirri söfnun lýkur um komandi helgi.
Þegar hefur safnast um 120 prósent af þeirri upphæð sem þarf til að spilið fari í framleiðslu, en til þess þurfti að safnast
Náist að safna 150 prósent af umbeðinni upphæð munu allir bunkar spila í Þingspilinu koma í hágæða spilakassa. Náist að safna yfir 200 prósent af því sem óskað var eftir, um 1,6 milljón króna, verða spilin sjálf uppfærð og prentuð á hágæða pappír.
Spilinu er lýst sem leik fyrir fólk sem þolir ekki spillingu, nema það fái að spila með.
Jón Þór segir að hann hafi lengi hugsað um leiðir til að leikjavæða stjórnmálin og eftir að Gísli Einarsson, eigandi spilaverslunarinnar Nexus, benti honum á að vinsælustu spilin í búðinni væru partý spil, sem væru fljótlærð, fljótspiluð og skemmtileg, þá small hugmyndin saman.
Spilið er kortaspil sem passar í rassvasann og hægt að setja það upp og byrja að spila á innan við mínútu. Það er gert fyrir 3-8 spilara 14 ára og eldri og tekur 15-30 mínútur ef spilaðar eru tvær umferðir. „Þingspilið varð til í hitamóki eina desember nótt fyrir rúmu ári. Fyrri hugmyndir höfundar um stjórnmálaspil röðuðust svo inn í partýspila ramman í hitamókinu.“
Fyrsta hönnunin var unnin í síðasta jólafríi Jóns Þórs frá Alþingisstörfum. Spilið skrifaði sig svo eiginlega sjálft, að sögn Jóns Þórs, þegar farið var yfir stjórnmálasöguna í skopmyndum Halldórs Baldurssonar, sem birtast í Fréttablaðinu. „Halldóri fannst hugmyndin góð og gaf grænt ljós á að gera spilið. Formenn flokkanna á þingi sáu svo sitt spil og var skemmt. Einn sagði höfund ekki alslæman, annar vildi sjálfu af sér með höfundi og enn annar bað um að sjá hin „Formannaspilin“ og var sáttur við samanburðinn.Þema spilsins er að spila stjórnmálin síðustu ára í gegnum skopmyndir Halldórs Baldursonar. Þetta er eins og að spila Áramótaskaupið.“
Hér er hægt að taka þátt í framleiðslu spilsins og kaupa eintak.