Ólympíuleikunum frestað – og hvað svo?

Þann 24. júlí hefði opnunarathöfn Ólympíuleikanna 2020 átt að fara fram, en heimsfaraldur hefur leitt til þess að leikunum í Tókýó verður frestað um eitt ár hið minnsta. Það er ekki einsdæmi að Ólympíuleikum sé frestað eða aflýst.

Kanaguri Shizo árið 1912 og við enda hlaupsins 1967.
Kanaguri Shizo árið 1912 og við enda hlaupsins 1967.
Auglýsing

Þann 20. mars árið 1967 hljóp móður og sveittur japanskur ellilífeyrisþegi í gegnum mark á hlaupabraut í Stokkhólmi, og lauk þar með tímafrekasta maraþonhlaupi sögunnar. Maraþoni sem hófst árið 1912. Maðurinn var einsamall, eini keppandinn sem var eftir, en þrátt fyrir það tók fjöldi áhorfanda klappandi á móti honum auk blaðamanna og sjónvarpsmyndavéla. Nokkuð óvenjuleg athygli fyrir hlaup eins gamalmennis, þó svo það gerðist sennilega ekki á hverjum degi árið 1967 að japanskir eftirlaunaþegar hlypu um götur Stokkhólms, og hvað þá að eftirlýstir menn næðu að ljúka hlaupi fimm áratugum eftir að það hófst.

Í hvert sinn sem einhver segir okkur að lífið sé langhlaup þá ættum við að hafa í huga sögu Kanaguri Shizo, og við ættum líka að hafa hana í huga þegar við hugsum til þess að Ólympíuleikarnir verða ekki ár eins og vanalega, heldur er þeim frestað í fyrsta sinn frá því árið 1940.

Þetta er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem Ólympíuleikum er frestað frá því þeir hófust aftur við upphaf síðustu aldar. Meira að segja ekki einu sinni í fyrsta sinn sem Tókýóborg frestar þeim. Af skiljanlegum ástæðum var lítil stemning fyrir Ólympíuleikunum árið 1916 þegar blóðugustu átök hingað til í sögunni stóðu yfir, og einnig skiljanlegt að hvorki árið 1940 né árið 1944 gátu þjóðir heimsins mæst í friði ólympíuleikvanginum, enda hafði seinni heimsstyrjöldinni tekist að slá öll met þeirrar fyrri í blóðsúthellingum og hryllingi.

Grikkir til forna höfðu þá reglu að jafnvel á stríðstímum máttu íþróttamenn komast greiðlega leiðar sinnar til að keppa, enda voru Ólympíuleikarnir tileinkaðir Seifi og enginn stríðsherra vildi styggja hann. Þess vegna náðu hvorki styrjaldir né plágur að stöðva leikana á fornöld, en nútíminn og alþjóðasamfélagið lýtur öðrum reglum en grísku borgríkin. Ólympíuleikarnir fara einungis fram á friðartímum, og einungis ef ekki vofir yfir hætta á banvænum vírusum.

Tókýó 1940 – Ólympíuleikarnir sem aldrei urðu

Áður en heimsstyrjöldin síðari hófst stóð einmitt til að halda Ólympíuleikana í Tókýó. Það er sennilega ekki til marks um góða dómgreind hjá valnefndinni að rétt fyrir upphaf heimsstyrjaldarinnar hlutu Berlín og Tókýó þann heiður að hýsa leikana. Það voru nasistarnir í Þýskalandi sem fundu upp á þeirri hefð að láta ólympíukyndil kveikja ólympíubálið, en þegar stóð til að taka ólympíulogana austur þá voru Þjóðverjar búnir að hertaka Frakkland og byrjaðir að varpa sprengjum á London, og Japanir gengnir úr þjóðabandalaginu og fastir í langdregnu stríði á meginlandi Kína.

Auglýsing
Þrátt fyrir þetta var það ekki ólympíunefndin sem tók af skarið og afboðaði leikana. Hún hefur ávallt borið fyrir sig pólitísku hlutleysi og gert litlar siðferðislegar kröfur til landanna sem bjóðast til að halda leikanna. Það voru japanskir pólitíkusar og hershöfðingjar sem litu svo á að þótt leikarnir væru frábært áróðurstæki þá voru þeir of dýrir til að réttlæta í miðju stríði. Helsinki var því á síðustu stundu boðið að halda leikana en þó svo borgin hefði verið annar upphaflegu umsækjendanna afþökkuðu Finnar einnig heiðurinn. Vetrarstríðið við Sovétmenn var í fullum gangi og því hvorki tími né peningar aflögu til að undirbúa Ólympíuleika að sumri til og jafnvel óvíst að Finnland myndi vera sjálfstætt ríki enn á þeim tímapunkti. Það voru því hvorki keppt í þoli, þreki eða fimi það ár í Tókýó eða Helsinki það ár. Ári síðar vörpuðu Japanir sprengjum á Pearl Harbour með þeim afleiðingum að næstu árin logaði Kyrrahafið og Bandaríkin drógust inn í stríð við öxulveldin.

Að stríðinu loknu voru Japanir með takmarkaða getu til að halda leikana og þjóðir heimsins með enn minni áhuga á að mæta til Tókýó Leikarnir voru því haldnir í London, og fengu uppnefnið „The Austerity Games,“ vegna þess hversu nískulegir þeir voru í samanburði við fyrri leika. (Það uppnefni mætti kannski snúa upp á íslensku sem „hungurleikarnir“).

Ólympíuleikarnir 1964 – draumurinn rætist

En Ólympíudraumnum var þó ekki lokið. Árið 1964 komu þeir loks til Tókýó og í fyrsta sinn til Asíu, þar til Peking loks hélt þá árið 2008. Leikarnir árið 1964 mörkuðu tímamót fyrir ímynd Japans á Vesturlöndum, því þarna sást í fyrsta sinn friðsæl þjóð með vaxandi millistétt, gott skipulag og hraðskreiðar lestir. Stærstu útgjöldin í kringum leikana fólust mögulega í því hversu miklu hraðar fyrstu Shinkansen línurnar voru byggðar, en þetta voru á þeim tíma öflugustu og hraðskreiðustu lestar í heimi, og eru enn þann dag í dag mikið tækniafrek.

Japan hafði barist fyrir því að fá Júdó viðurkennda sem Ólympíuíþrótt og margir voru vongóðir um að það tryggði landinu auðveldan sigur. Það fór þó ekki betur en svo að Hollendingurinn Antonius Geesink sigraði japanskan andstæðing sinn með yfirburðum í úrslitaviðureigninni og hreppti ólympíugullið. En Japanir máttu vel við una, þeir hlutu 16 gull engu að síður sem var það lang mesta sem nokkur þjóð fékk að undanskildum stórveldunum Sovétríkjunum og Bandaríkjunum, en þau voru auðvitað í sérflokki.

Þetta var liður í strategíu sem gekk út á að koma Japan aftur í samfélag þjóðanna og bæta ímynd landsins. Japan var nýlega búið að greiða Indónesíu stríðsskaðabætur, skrifa undir viðskiptasamninga og mikið kapp var lagt á að endurnýja diplómatísk tengsl við lönd eins og Suður-Kóreu sem höfðu verið hernumin af Japönum. Forsætisráðherrann þegar tilkynnt var að Ólympíuleikarnir skyldu haldnir í Japan, Kishi Nobusuke var þó að mörgu leyti umdeildur maður heima fyrir og erlendis. Í heimsstyrjöldinni síðari hafði hann verið æðsti stjórnandi Mansjúríu í Norður-Kína þar sem framdir voru margir stríðsglæpir, og eftir stríðið mátti hann dúsa í fangelsi, flokkaður á A-lista bandamanna yfir stríðsglæpamenn, enda hafði hann verið í ríkisstjórninni sem lýsti stríði á hendur Bandaríkjunum og undirskrift hans var á 

Í þessum pistli verður ekki rakið hvernig Bandaríkjamenn komust að þeirri niðurstöðu að Japan gæti fallið í skaut kommúnismans og að Kishi væri maðurinn til að bjarga Japan undan þeim örlögum, en þremur árum eftir stríðið höfðu þeir sleppt honum úr fangelsi og studdu hann í stofnun nýs íhaldsflokks. Áratug eftir stríðið var hann farinn að spila golf með Eisenhower, og kynntur upp í pontu af Nixon sem heiðursgestur í Bandaríkjaþingi, enda litu Bandaríkjamenn hann á lykilbandamann sinn, (Þeir voru nú þegar byrjaðir að þrýsta á Japani vígvæðast aftur og að leyfa þeim að stækka herstöðvar sínar í landinu til að geta betur sigrast á kommúnismanum í Suð-Austurasíu, nánar tiltekið Víetnam).

Auglýsing
Kishi varð þess ekki aðnjótandi að vera forsætisráðherra þegar Ólympíuleikarnir komu til Japans 1964. Segja má að hernaðarbrölt Bandaríkjanna hafi kostað hann embættið, því mótmælaaldan sem reis eftir að Nobusuke kynnti til nýjan varnarmálasamning Japana við Bandaríkin varð honum að falli. Sá heiður að taka á móti Ólympíuleikunum féll í skaut Ikeda Hayato, pólitískum andstæðingi og mun frjálslyndari samflokksmanni Kishi sem vildi leggja áherslu hagvöxt og efnahagslegar úrbætur fyrir almenning, frekar en að auka pólitísk umsvif keisarans eða vígvæðast aftur.

Þegar tilkynnt var á Ólympíuleikunum þá var það þó enginn annar en dóttursonur Kishi sem steig upp á sviði. Grænt rör svipað því sem sést í Nintendo-leikjunum um Súper Maríó reis upp úr jörðu og þaðan upp úr steig Abe Shinzo, núverandi forsætisráðherra Japans.

Það verður forvitnilegt að sjá hvort Abe Shinzo haldist í embætti nógu lengi til að taka á móti Ólympíuleikunum, hann er að mörgu leyti pólitískur arftaki móðurafa síns, úr íhaldssamari armi íhaldsflokksins, en hann er óvenju sterkur forsætisráðherra í landi þar sem sjaldgæft er að forsætisráðherrar haldist lengi á toppinum. Í augnablikinu siglir hann þó nokkuð lygnan sjó.

488 milljarða króna framkvæmdasjóðurinn

Tókýó stendur því upp úr í sögu Ólympíuleikana að því leytinu til að hún hefur bæði haldið Ólympíuleika einu sinni og aflýst þeim tvisvar. Að öllu jöfnu ef enginn heimsfaraldur færi nú um heiminn hefði heimsbyggðin átt að safnast saman fyrir framan sjónvarpsskjái og horfa á opnunarathöfn leikanna í Tókýó þann 24. júlí.

Sama hvort við fílum íþróttir eða ekki þá eru opnunaratriði og lokaatriði Ólympíuleika mikið sjónarspil þar sem þjóðir reyna að sýna bæði listræna og tæknilega getu sína. Í Ríó fyrir fjórum árum voru samba-dansar, ofurfyrirsætur og atriði þar sem leikvangurinn umbreyttist í bæði frumskóg og amazon-fljót. Í London var breskt popp, James Bond og drottningin fyrirferðamikil svo eitthvað sé nefnt.

Athöfnin í Tókýó hefði eflaust verið glæsileg og vel skipulögð. Ég ímynda mér að bæði pókemonar og poppstjörnur, Súper Maríó og ýmsar teiknimyndafígúrur, auk dansatriða sem byggðu á kabúkí, Noh-leikhúsi eða öðrum hefðbundnum listum, leikenda í glæsilegum kímónóum og himinn fullan af trylltum flugeldum, (Það er mikil hefð í Japan fyrir sumar-flugeldasýningum), hefðu sést í sjónvarpinu ef þeim hefði ekki verið frestað.

Auðvitað ætti ég ekki að skrifa hefði. Ég ímynda mér auðvitað að þó svo engir spjótkastarar, spretthlauparar, kúluvarparar eða sundkappar sjáist á skjánum í augnablikinu sé það bara tímabundið ástand meðan kófið stendur yfir. Munum, lífið er langhlaup.

Það er mikið í húfi að leikarnir séu haldnir, að vel takist til og þeir séu vel sóttir. Árið 2012 var ákveðið að ráðast í framkvæmdir á þjóðarleikvanginum í Tókýó, sem á sínum tíma hafði hýst Ólympíuleikana 1964. Þessar framkvæmdir áttu fyrst að kosta um milljarð adala en bólgnuðu fljótt út og um 2015 var gert ráð fyrir 2,2 milljörðum dala til að reisa byggingu sem bresk-íraski arkitektinn Zaha Hadid átti að teikna.

Þessar hugmyndir mæltust álíka vel fyrir og innflutningur á dönskum strám í Nauthólsvíkina og borgaryfirvöld urðu fljótt að draga úr áætlunum sínum og velja þess í stað teikningar japanska arkitektsins Kengo Kuma en drög hans að nýjum og betri þjóðarleikvang áttu eftir að reynast um einum milljarði dala ódýrari. Það er þó ekki nema hluti kostnaðarins. Tókýóborg setti til hliðar fé í 3,6 milljarða dala framkvæmdasjóð, auk þess sem einkaaðilar hafa fjárfest verulegum upphæðum í hótelbyggingar. (Tókýóborg er með eitt hæsta fermetraverð í heimi). Nú þegar er búið að færa einn stærsta fiskmarkað í heimi til að hægt sé að byggja ný hótel miðsvæðis og vonin var sú að túrismi og gestir sem kæmu í kjölfar Ólympíuleikanna myndu glæða lífi í staðnaðan efnahag.

Það er mikið í húfi. Stórar fjárhæðir, og COVID-19 hefði varla getað skollið á verri tíma.

Lífið er langhlaup – bókstaflega fyrir suma

Nú er ekki meiningin að rekja baráttu japanskra stjórnvalda við COVID-19, margir hafa furðað sig á árangri japönsku þjóðarinnar sem ekki býr við þann lúxus að hafa ótal veikindadaga, en þó við afar gagnlega hefð sem hefur verið við lýði frá því Spænska veikin skall á 1920. Hún er sú að ganga um með grímur ef maður finnur fyrir kvefeinkennum, nokkuð sem Japönum þykir sjálfsagt að þegar frjókornatíminn gengur yfir á vorin í Tókýó fyllast allar lestir af grímuklæddu fólki sem er alltof kurteist til að hnerra á hvort annað. Sökum þess og kannski menningarlegra áherslna á hreinlæti breiddist COVID-19 seint innan landsins þar sem stjórnvöld drógu á lappirnar að fara í miklar neyðarráðstafanir.

Pólitíkusarnir héldu lengi í vonina að í júlí yrðu leikar en gáfu sig þó á endanum. Enda jafnvel þó Japan gæti lýst yfir fullnaðarsigri í baráttunni við veiruna þá velta ólympíuleikarnir ekki síður á þátttöku annarra þjóða, og ekki bjargar það hótelunum ef að engir áhorfendur sjá sér fært að mæta. Það er því sennilega skynsamleg ráðstöfun að fresta leikunum í bili. Ekki bara lýðheilsulega heldur líka fjárhagslega.

Það er því ekkert annað að gera en að bíða og vona. Lífið er jú, langhlaup. Þó svo Ólympíuleikar séu aflýstir 1940 getur verið að 24 árum síðar séu þeir haldnir á sama stað, og þó svo maður hverfi úr miðju maraþoni árið 1912 er ekki víst að maður fái aldrei færi á að ljúka því.

Árið 1912 hófst nefnilega ólympísk saga Japans þegar tveir íþróttamenn settust um borð í lest og fóru frá Kóreu yfir Kína og loks Síberíu með stefnuna á Stokkhólm. Annar þeirra veiktist illa og hinn, maður að nafni Kanaguri Shizo varð að hjúkra honum alla leiðina. Þessir tveir menn ætluðu sér að keppa á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi og voru fyrstu Japanarnir til að reyna slíkt. Sá sem veiktist Mishima Yahiko var spretthlaupari, og sá sem hjúkraði honum í lestinni var langhlauparinn Kanaguri sem ætlaði að reyna við Maraþon á leikunum.

Í átján daga lestaferðinni þar sem vinur Kanaguri var með háan hita voru fá tækifæri til að æfa sig, þó svo hlauparinn nýtt hvert stopp til að hlaupa á brautarpöllum og hring um lestarstöðvarnar. Þegar hann kom til Svíþjóðar átti hann erfitt með að melta matinn í landinu og var kannski sjálfur orðinn veikur. Engu að síður þá mætti hann til leiks þann fjórtánda júlí og spratt af stað ásamt öðrum hlaupurum.

Þetta var erfiður dagur og einungis hálfnaður með hlaupið féll japanski langhlauparinn í yfirlið. Sænsk fjölskylda í nágrenninu bjargaði honum af götunni og hjálpaði honum að ná sér, en þá var dagurinn liðinn og Kanaguri skammaðist sín svo mikið að hann þorði ekki að tilkynna hvað hafði gerst. Hann fór því hljótt og lét sig hverfa úr landi. Honum fannst hann hafa valdið landi sínu mikilli skömm, enda mikið í húfi. Þetta var í fyrsta sinn sem Japan tók þátt, eina asíuþjóðin, og hann hafði fallið í yfirlið.

Það sem langhlauparinn vissi hins vegar ekki var að hann þurfti ekki að skammast sín neitt sérstaklega. Hitastigið hafði verið óvenju hátt þennan júlídag, um 32 gráður, og helmingur hlauparanna hafði fengið aðsvif og neyðst til að hætta í miðju hlaupi. En þar sem hann tilkynnti ekki yfirvöldum að hann væri farinn, og mætti aldrei í mark, eða aftur í Ólympíuþorpið, töldu menn að hann hefði horfið sporlaust.

Stjórnvöld í Svíþjóð reyndu að hafa uppi á honum og þegar hvorki tangur né tetur fannst af honum fór hann í möppu sem óútskýranlegt mannshvarf.

Auglýsing
Kanaguri lifði þó ágætu lífi eftir þetta. Hann þjálfaði íþróttamenn í Japan, stofnaði keppnir og keppnisdeildir, sneri aftur á Ólympíuleikana 1920 í Antwerpen og náði góðum árangri í Maraþonhlaupinu þar. Hann og aðrir í japönsku Ólympíunefndinni áttu eflaust mikið heiðrinum fyrir því að Tókýó vann tilboðið um að halda leikana 1940 og aftur 1964. Svo virðist sem að á þeim tímapunkti að sænska lögreglan hafði gefist upp á að finna japanska langhlauparann og ekki einu sinni hugkvæmst að athuga hvort hann væri skráður hlaupari á öðrum ólympískum viðburðum.

En árið 1967 vakti málið forvitni sænskra blaðamenn. Það var eitthvað svo skrítið við að þátttakandi í ólympíuleikum hyrfi sporlaust. Og viti menn, eftir smá rannsóknarvinnu kom í ljós að Maraþonhlauparinn var búsettur í Japan og kominn á eftirlaun.

Haft var samband við Kanaguri og honum boðið að koma aftur til Svíþjóðar og klára hlaupið. Ágóðinn af því átti að renna til góðgerðarmála. Kanaguri sem hafði alltaf skammast sín fyrir þetta atvik í lífi sínu sló til. Í þetta skiptið þurfti hann ekki að þrauka átján daga um borð í síberískri kolalest heldur gat flogið. Hvort að hann náð að melta sænska matinn eða tekið með sér nesti fylgir ekki sögunni en þegar hann kom í mark og var spurður út í hlaupið sagði hann:

„Þetta var nokkuð löng ferð, í millitíðinni giftist ég og átti sex börn og tíu barnabörn.“

Hann á ennþá metið fyrir tímafrekasta Maraþonhlaupið.

Spurningin er svo bara hvort Tókýó slái fyrra met um 24 ára frestun á haldi Ólympíuleika, eða takist að halda þá í júlí á næsta ári.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiFólk