Sjónrænt skipulag hefur hjálpað börnum og fullorðnum um allan heim með því að brjóta daginn niður í smærri einingar og sýna heildarmyndina á skýrari hátt. Emotiblots herferðin, sem nú er safnað fyrir á Karolina Fund, gengur út á að kynna nýja hugmynd af sjónrænu skipulagi til að auðvelda foreldrum og aðstandendum lífið. Um ræðir umhverfisvæna og fallega lausn þar sem búlduleitar fígúrur eru handmálaðar á 100% náttúrulega viðarsegla.
Zita Major, sem stendur að verkefninu ásamt Peter Garajszki, segir að hugmyndin að því hafi kviknað eftir að átta ára sonur þeirra, Aron, hafi greinst með einhverfu. „ Þá runnu á okkur tvær grímur. Fyrstu köstin hans þriggja ára, voru allt í einu ekki lengur vegna afbrýðisemi gagnvart nýfæddri systur hans, Hönnu. Heldur vegna óöryggisins sem því fylgdi eftir að áhersla heimilisins færðist frá honum og hans rútínu. Það eitt getur verið erfið lífsreynsla fyrir einhverf börn. Þá hófst upphaf Emotiblots™ skipulagsspjaldanna sem ég gerði fyrir hann svo hann fyndi fyrir öryggi og gleði.
Zita segir að seglarnir séu vandaðir, fallega hannaðir og spari foreldrum mikinn tíma. „Seglarnir eru mun endingarbetri en spjöldin og geta borist á milli kynslóða. Foreldrar barna með einhverfu eru ofurhetjur en allar ofurhetjur þurfa aðstoð á einhverjum tímapunkti. Okkar markmið er að vera þessum meisturum til aðstoðar í að búa til áreynslulausa dagskrá fyrir börnin svo hægt sé að einbeita sér að stundunum sem veita ánægju.“