Hvað ætli sé mesta afrek ökuþórs í kappakstri? Eru það sjö heimsmeistaratitlar Michael Schumacher í Formúlu 1? Níu heimsmeistaratitlar Sebastien Loeb í rallakstri í röð eða níu heimsmeistaratitlar Valentino Rossi á mótorhjóli? Þetta eru stórkosleg afrek sem verða hugsanlega aldrei bætt. En það er til afrek sem stundum gleymist þegar fólk telur titla og verðlaun. Þessi afrek falla öll í skuggan á þríkrúnunni.
Það eru þrjú mót í heiminum sem alla ökumenn dreymir um að vinna. Það eru Mónakó kappaksturinn, sólarhringsaksturinn í Le Mans og Indianapolis 500-kappaksturinn. Allt eru það stærstu viðburðirnir í hverri mótaröð fyrir sig. Aðeins einum hefur tekist að vinna öll þrjú mótin á sinni lífsleið; titil sem yfirleitt er kallaður Þríkrúnan.
Þessi þrjú mót eru einstök hver á sinn hátt og gríðarlega ólík. Þau bera hins vegar öll upp um þetta leyti árs, í lok maí og byrjun júní. Núna á sunnudag þræða Formúlu 1-ökumenn strætin í Mónakó og ofurhugar handan Atlantshafsins aka 200 sinnum yfir múrsteinana í Indianapolis á tæplega 400 km/h. Helgina 13.-14. júní verður svo keppt í þolakstri í Le Mans í Frakklandi.
Það er þess vegna sem aðeins einn ökuþór hefur unnið Þríkrúnuna. Sá hét Graham Hill, síðhærður Breti sem ávalt bar þunnt yfirvaraskegg, svona eins og til að halda í upprunann. Hann bjó yfir þeim sérstaka hæfileika að geta beislað þrjósku sína og drifkraft til að vinna sig einfaldlega upp á toppinn. Þeir sem þekktu Graham töldu hann alls ekki vera neinn náttúrutalent þó hann hafi haft burði til að standa í hárinu á Jim Clark og Jackie Stewart, sem báðir voru góð dæmi um menn sem fengu hæfileikana í vöggugjöf.
Á þeim tíma sem Hill ók (1958 til 1975) þótti það alls ekkert tiltökumál þó bestu ökumenn heims, sem kannski kepptu í Formúlu 1, tækju þátt í öðrum mótaröðum. Þessir menn höfðu það að atvinnu að aka kappakstursbílum hraðar en aðrir, og það gerðu þeir nær allar helgar. Tími Hill var jafnframt sá tími þar sem öryggi var aðeins smámál. Framan af þekktist það varla bílarnir væru búnir öryggisbeltum.
Hann var aldrei talinn vera bestur eða líklegastur til að vinna, þvert á móti var hann oft aðeins heppinn. Fyrsta heimsmeistaratitilinn í Formúlu 1 vann hann, þvert á allar spár, eftir að Jim Clark féll úr leik í síðustu keppninni.
Og Le Mans-kappaksturinn átti hann alls ekki að vinna, þegar hann tók þátt í þetta eina skipti árið 1972. Matra Simca-liðið skráði tvo bíla til leiks og vildi að heimamaðurinn og ungstirnið François Cevert ynni kappaksturinn. Illa fór hins vegar fyrir Cevert þegar bíllinn laskaðist mikið undir hádegi í lok mótsins, svo Hill vann.
Alonso heillaður
Það var við þessar aðstæður sem Graham Hill vann öll þrjú mótin. Það þurfti hins vegar, rétt eins og í dag, ekki aðeins heppni heldur líka ákveðna aðlögunarhæfni. Mótin þrjú sem mynda þríkrúnuna eru í grunnin mjög ólíkar keppnir. En hvað er svona sérstakt?
Formúlu 1 ökuþórinn Fernando Alonso tilkynnti á dögunum að hann myndi ekki taka þátt í Formúlu 1-kappakstrinum í Mónakó í ár vegna þess að hann ætlar að keppa í Indy500-mótinu sama dag vestan Atlandshafsins. Alonso er tvöfaldur heimsmeistari í Formúlu 1 og hefur unnið Mónakókappaksturinn tvisvar á ferlinum, árin 2006 og 2007.
„Ég er búinn að vinna Mónakókappaksturinn tvisvar og það er eitt af mínum markmiðum í kappakstri að vinna Þríkrúnuna,“ var haft eftir Alonso í Autosport á miðvikudaginn.
„Það er gríðarleg áskorun, en ég er klár í þetta. Ég veit ekki hvenær ég ætla að taka þátt í Le Mans, en einn daginn langar mig að gera það. Ég er bara 35 ára. Ég hef nægan tíma.“
Spánverjinn Alonso ekur fyrir McLaren-liðið í Formúlu 1 en undanfarin ár hefur liðið ekki átt góðu gengi að fagna. Honda-vélar liðsins hafa verið gallaðar og Alonso hefur kvartað sáran yfir því að þurfa að berjast um síðasta stigasætið í kappökstrum í stað sigurs.
Það þykir mjög óvanalegt að Formúlu 1-ökuþór skuli geta sagt sig frá keppni í einu móti – án þess að hann sé slasaður – til þess eins að taka þátt í annari mótaröð. Styrktarsamningar í öllum íþróttagreinum eru orðnir gríðarlega yfirgripsmiklir og hamlandi hvað þetta varðar.
Alonso hefur gripið tækifærið til þess að smella einni rós til viðbótar í hattinn; Indy500 kappaksturinn fer fram 28. maí 2017, sama dag og kappaksturinn í Mónakó. Sólarhringsaksturinn fer svo fram í Le Mans um miðjan júní.
Monte Carlo, Mónakó - 28. maí 2017
Í Mónakó gildir fágun ökuþórsins og geta hans til að sigra vegriðin. Ein mistök geta ekki þýtt annað en árekstur við girðingarnar sem umlykja þröng strætin í Monte Carlo. Í tíð Graham Hill áttu ökumenn jafnvel hættu á alvarlegum áverkum yrðu þeir fyrir óláni.
Fyrir þá sem fá tækifæri til að keppa í Mónakó bíður þess vegna ekki auðvelt verk. Umstangið í kringum hið árlega Formúlu 1-mót er slíkt að ökumenn stíga oft örþreyttir upp í bílana, eftir kokteilboð, tískusýningar og myndatökur með kvikmyndastjörnum og boð í partí um borð í snekkjunum í höfninni. Í kappakstrinum sjálfum bíður enn meiri raun; Þeir þurfa að hendast á hátt í 300 km/h fram hjá lúxushótelum og snekkjulæginu, þar sem fólk stendur svo nálægt og veifar að ökumenn geta kannski greint andit þeirra.
Graham Hill vann þetta mót fimm sinnum, sem var met allt þar til Ayrton Senna vann sinn sjötta sigur í Mónakó 1993. Hill þótti hafa svo mikla yfirburði í furstadæminu að hann var stundum kallaður Mr. Monaco í bresku pressunni sem hafði (auðvitað) dálæti á honum.
Kappaksturinn í Mónakó hefur verið haldinn ár hvert síðan árið 1929, að stríðsárunum undanskildum. Brautin hlykkjast enn um sömu strætin þó þau hafi hnikast aðeins til með tíð og tíma.
Indy 500, Indianapolis - 28. maí 2017
Gríðarlegur fjöldi fólks sækir Indianapolis 500-kappakstrurinn ár hvert. Vestanhafs er mótið stundum kallað Super Bowl kappakstursins, enda lang stærsti sjónvarpsviðburður ársins þar sem sýnt er frá kappakstri.
Í Indianapolis er vítt til veggja, umhverfis sporöskjulaga braut þar sem allar beygjurnar eru til vinstri. Þar keppa líka mun fleiri en í Mónakó (á ráslínunni árið 2015 voru 33 bílar) svo það eitt að lenda ekki í samstuði getur reynst flókið, sérstaklega fyrstu hringina.
Keppnin sjálf varir eins lengi og fremsta manni tekst að komast yfir 500 mílur. Það gera nákvæmlega 200 ferðir yfir múrsteinaröðina frægu þar sem köflótta flaggið fellur. Kappaksturinn í ár mun að öllum líkindum vara í tæpa þrjá klukkutíma, svo það er auðvelt að sjá að ökumenn verða að temja einbeitinguna sérstaklega umhverfis þessa einhæfu braut.
Graham Hill keppti þrisvar í Indianapolis en tókst aðeins einu sinni að klára. Það var í frumrauninni þegar hann kom fyrstur í mark 1966. Strax í ræsingu varð mikið slys og stöðva þurfti kappaksturinn í nokkra stund áður en ökumönnum var gert að herða hugann og keppa. Á mínútu 10 í myndbandinu hér að ofan má sjá slysið.
Keppt hefur verið umhverfis brautina í Indianapolis nær óslitið síðan 1911, að stríðsárunum undanskildum. Fyrsta mótið stóð í tæpar sjö klukkustundir.
Circuit de la Sarthe, Le Mans - 17. til 18. júní 2017
Sólarhringsaksturinn í Le Mans er mikil þolraun fyrir ökumenn. Þar er ekið sérsmíðuðum götubílum eftir þjóðvegum í norðanverðu Frakklandi. Markmiðið er að koma sama bílnum fyrstum í mark þegar 24 klukkustundir eru liðnar en það geta allt að þrír ökuþórar deilt sama bílnum í kappakstrinum.
Það getur því verið flókið fyrir kappakstursökuþór sem er vanur því að sitja einn að sínum bíl að þurfa að deila tækinu með öðrum. Til þess þarf hann að taka tillit til hinna við uppstillingu og undirbúning fyrir mótið, sem getur reynst erfitt.
Þegar Graham Hill var ráðinn til að aka fyrir Matra Simca árið 1972 var þar fyrir franskur ökuþór að nafni Henri Pescarolo sem leist alls ekki vel á þetta breska „snobbhæsn“. Og það var stirt milli þeirra innan liðsins til að byrja með, en Hill tókst með frábærum og hetjulegum akstri í myrkri nóttinni að sannfæra Pescarolo um ágæti sitt.
Aksturinn í myrkrinu er nefnilega það sem hefur oft skorið úr um hver eigi eftir að vinna í Le Mans. Brautin liggur eftir löngum og ójöfnum vegi áður en Mulsanne-beygjurnar birtast skyndilega í ljósskímunni frá bílnum sem nær aldrei nógu langt þegar ekið er á meira en 300 km/h.
Í myndbandinu hér að ofan má sjá brautina með augum ökumanns árið 1977, áður en henni var breytt lítilega til að minnka hraða. Þegar ein mínúta er liðin af myndbandinu er ekið eftir veginum til Mulsanne og þegar tæpar tvær mínútur eru liðnar birtast Mulsanne-beygjurnar óvænt. Ímyndaðu þér að aka þetta í myrkri.
Verður afrekið endurtekið?
Það er ljóst af þessu að afburða hugrekki þarf til að geta unnið Þríkrúnuna. Hugrekkið þarf ekki aðeins að vera um borð í bílnum heldur einnig í ákvörðunartöku, því sé maður sigursæll í einni mótaröð er ekki þar með sagt að lukkan leiki við mann annarstaðar.Fleiri Formúlu 1-ökumenn tóku þátt í Indy 500 á tímum Graham Hill. Hæfileikamenn eins og Clark og Stewart kepptu þar en þrátt fyrir það liðu nærri 40 ár þar til nokkrum öðrum tókst að vinna bæði Indy 500 og í Mónakó.
Það þykir hins vegar vera óvinnandi verk fyrir nútíma ökuþór að vinna þríkrúnuna í dag. Mikill vöxtur varð í „open-wheeler“ kappakstri vestanhafs á níunda og tíunda áratugnum. Til marks um það sagði Nigel Mansell skilið við Formúlu 1 eftir að hafa orðið heimsmeistari 1992 og keppti í IndyCar-mótaröðinni í Bandaríkjunum og varð meistari þar líka árið 1993.
Árið 1996 varð hins vegar klofningur meðal þátttakenda í IndyCar með þeim afleiðingum að vinsældir mótaraðarinnar og styrkleiki minnkaði gríðarlega. Í dag hefur mótaröðunum verið steypt aftur saman en sú nýja er alls ekki talin jafn öflug og áður. Það er því ólíklegt að ökuþór í IndyCar-mótaröðinni fái samning hjá sigursælu liði í Formúlu 1, eins og málin standa nú.
Þá er auðvitað ótalin sú staðreynd að kappakstur nútímans er orðinn of markaðsvæddur og flókinn, auk þess sem samkeppnin er orðin mun harðari en áður þekktist. Það skal þó aldrei segja aldrei. Enn keppir einn ökuþór sem unnið hefur tvö mót af þremur.
Það er Juan Pablo Montoya frá Kólumbíu sem vann Indy 500-kappaksturinn í sinni fyrstu atrenu árið 2000. Árið 2003 vann hann í Mónakó, þegar hann ók fyrir Williams-liðið í Formúlu 1. Hann keppir nú í IndyCar og tekur þátt í Indy 500-mótinu á morgun.
Fernando Alonso hefur tekist að brjóta markaðsvæðingu kappakstursins á bak aftur og nýtir sér auglýsingasamninga beggja vegna Atlantshafsins til þess að láta drauminn verða að veruleika. Hann hefur hins vegar aðeins unnið einn kappakstur af þremur. Það er því verk að vinna.