Forest Kids Norway er leikfangaframleiðandi sem rekin er af tveimur Íslendingum, Ólafi Stefánssyni og Lilju Björg Eysteinsdóttur og er fyrirtækið staðsett í litlum bæ í suðurhluta Noregs. Þau handsmíða leikfangavörur og husgögn úr tré sem ætlað er að hjálpa börnum að skapa þroskandi uppgötvanir í gegnum leik, bæði með líkamlegri hreyfingu og með því að bjóða upp á áskoranir sem stuðla að sjálfstæði og sjálfstrausti með einföldum uppgötvunum og leik. Flest leikföngin eru byggð á Montessori hugmyndafræðinni.
Ólafur segir hugmyndina að verkefninu hafa vaknað fyrir þremur árum. „Þá veiktist ég alvarlega þar sem ég greindist með krabbamein og fór í stóra aðgerð. Eftir það fekk eg ekki vinnu vegna þessa, svo ég fékk þessa hugmynd þvi að ég hef alltaf verið mjög virkur og skapandi og hef mjög gaman að því að vinna með höndunum. Það má segja að ég sé aldrei hugmyndasnauður. Þannig að þessi hugmynd kom upp sem áhugamál til að byrja með. Við byrjuðum að hanna og búa til barnaleikföng og pökkuðum þeim í litla kjallaranum heima hjá okkur. Í dag leigjum við meira áberandi stað og seljum leikföngin okkar á vefsíðunni okkar.“
Hann segir að söfnunin á Karolina Fund snúist um að fá fjármagn til að hefja framleiðslu á nýrri leikfangalínu. Það sé mikið starf að framleiða og markaðssetja leikföngin. „Við þurfum aðstoð við að koma fyrirtækinu og vörum þess á næta stig. Það er hægt að styrkja okkur með því að kaupa gæðavörurnar okkar í gegnum Karolina Fund á frábærum afslætti.“