Sandra Sigurðardóttir er íþrótta- og heilsufræðingur að mennt með MBA gráðu frá Háskóla Íslands. Sandra hefur meðal annars unnið við þjálfun, kennslu og endurhæfingu, en hugmyndin að Berglindi Heilsumiðstöð kviknaði einmitt þegar hún vann við endurhæfingu og sá með eigin augum hversu fljótt einstaklingar áttu það til að missa niður góðan árangur sem náðist í markvissu heilsuátaki undir stjórn fagfólks. Hugmyndina vann hún síðan jafnt og þétt samhliða MBA-námi sínu og er nú tilbúin með hana á markað.
Berglind Heilsumiðstöð er fyrirtæki sem veitir fjarheilbrigðisráðgjöf sem felur í sér skimun, fræðslu og forvarnir. Þeim sem vilja styðja við verkefnið er bent á að fara inn á karolinafund.com.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
„Hugmyndin kviknaði þegar ég sá einstaklinga koma í endurhæfingu eða markvissa þjálfun hjá fagaðilum og ná undraverðum framförum. Þegar sömu einstaklingar komu síðan aftur í meðhöndlun ári síðar voru margir þeirra því miður komnir í sama farið, eða voru jafnvel í verra standi. búnir að missa niður þennan árangur og oft í verra standi heldur en áður en þeir komu inn. Ég sá að þarna var stór hópur fólks sem vantaði stuðningsnet og eftirfylgni til að aðlaga breyttar venjur að sínu daglega lífi. Ég sá það alltaf betur að það vantar að grípa einstaklinga fyrr, áður en í óefni er komið og vinna að því að fræða og vera með fleiri fyrirbyggjandi aðgerðir.
Við Íslendingar erum heppnir að búa við jafn gott heilbrigðiskerfi og raun ber vitni, en við vitum að við getum gert betur. Til að minnka álag á heilsugæslur landsins verðum við að vinna betur í forvörnum og fræðslu til almennings. Hægt er að sporna við frekari lífsstílstengdum sjúkdómum með skimun og fræðslu áður en í óefni er komið. Það sem var svo vendipunkturinn var COVID-19. Þá þurftum við allt í einu að hugsa öðruvísi og í lausnum. Skyndilega kunnu all flestir á fjarfundabúnað og þá kom þessi lokaafurð, fjarheilbrigðisráðgjöf.“
Hvert er markmið verkefnisins?
„Markmið verkefnisins er að auka heilsulæsi almennings, að almenningur nái sem bestu lífsgæðum út lífið og við náum að fjölga heilbrigðum æviárum Íslendinga. Það er svona grunnurinn og það sem hugmyndafræðin gengur út á í stórum dráttum. Við veitum fjarheilbrigðisráðgjöf þar sem viðskiptavinir hitta okkur í gegnum fjarfundabúnað Kara Connect. Við bjóðum upp á þrjár þjónustuleiðir. Skimun og ráðgjöf, tímabundna eftirfylgni og svo áskriftarleið. Viðskiptavinurinn fær fullan aðgang að sínum persónulega ráðgjafa á áskriftartímabilinu. Við sendum út spurningalista sem viðskiptavinurinn skilar til okkar rafrænt fyrir fyrsta viðtalið og vinnum svo úr spurningalistanum áður en viðtalið fer fram. Í viðtalinu er skimað fyrir frekari áhættuþáttum út frá svörun spurningalistans með samtalsmeðferð. Niðurstöður eru svo sendar að loknu viðtali og þeim fylgt eftir á fjögurra vikna fresti með viðtali, sé áskriftarleið valin. Í niðurstöðum er meðal annars að finna ábendingar um þjónustu og meðferðaraðila, ef þurfa þykir, ásamt ráðleggingum og ábendingum um þjónustu- og stuðningsúrræði sem viðkomandi kann að eiga rétt á. Með þessu erum við ekki einungis að þjónusta höfuðborgarsvæðið heldur allt landið.
Ótrúlegt en satt þá er meðal ævilengd Íslendinga 82,5 ár, en meðalævilengd Íslendinga við góða heilsu er ekki nema 69 ár. Þarna sjáum við að við lifum rúm 13 ár við slæma heilsu, árin sem við erum einmitt að hætta að vinna, fara á lífeyri og njóta lífsins. Við þurfum eitthvað að breyta þessu, það er alveg klárt mál. Lýðheilsustöð hefur einnig skoðað hreyfingarleysi og gerði rannsókn þar sem fram kom að beinn kostnaður Íslenska ríkisins vegna kyrrsetu nemur um 4,7 til 4,9 milljörðum árlega.
Berglind Heilsumiðstöð er með teymi sem hefur fundið lausn og vill leggja lóð sín á vogarskálarnar og aðstoða fólk. Við brennum fyrir lýðheilsu almennings og viljum aðstoða fólk að ná og viðhalda góðri líkamlegri-, andlegri- og félagslegri heilsu.“