Helga Árnadóttir er hönnuður og myndskreytir Lestrar Flóðhesta, nýrra spila fyrir börn sem eru að taka sín fyrstu skref í lestri. Spilin eru ekki venjulegt léttlestrarefni, heldur eru þau skemmtileg og glaðleg spil fyrir alla fjölskylduna. Safnað er fyrir útgáfu spilanna á Karolina Fund.
Hvernig vaknaði hugmyndin að verkefninu?
Spilin urðu til þegar við fjölskyldan vorum með heimakennslu. Maðurinn minn, ég og börnin okkar þrjú höfum verið búsett í Danmörku síðustu ár. Við erum mikið fyrir að ferðast, gera eitthvað öðruvísi og brjóta upp hversdagsleikann
Á síðasta ári tókum við eitt ár í heimakennslu og ferðalög, meðal annars til Íslands. Þarna var yngsta barnið okkar í 1. bekk að læra að lesa. Þegar hann var búinn að læra stafina, kom að sjálfsögðu að því að byrja að lesa. Þá hinsvegar lentum við í smá veseni, því honum fannst svona ofboðslega leiðinlegt að lesa! Við reyndum að finna eitthvað áhugavert og skemmtilegt léttlestrarefni fyrir hann, en sáum að það var algjör vöntun á íslensku efni fyrir byrjendur í lestri. Fátt var í boði annað en léttlestrarbækur með engum söguþræði.
Okkur fannst vanta eitthvað fjörugt og skemmtilegt í lestrarúrvalið fyrir byrjendur, svo ég bjó til orðaspil á litla miða sem vöktu mikla lukku og við tókum strax eftir framför í bæði lestraráhuga og færni hjá guttanum okkar. Það besta var að við vorum bara að spila saman fjölskyldan og enginn að hugsa um lærdóm. Spilin urðu síðan ofur vinsæl hjá öllum þeim sem spiluðu með okkur, þannig að okkur langaði að gefa þau út, og leyfa fleiri krökkum að njóta.
Aðaláherslan hjá okkur er að spilin séu skemmtileg, og börnin upplifi ekki að þau séu að læra. Okkur sýnist það hafa tekist mjög vel því spilin eru mikið spiluð þegar vinir eru í heimsókn. Spilin eru fjölskylduverkefni og börnin okkar eiga stóran part í því, þau hafa verið með í öllu ferlinu. Svo er ég alveg vandræðalega tækniheft á mörgum sviðum og þá er gott að eiga mann sem er hugbúnaðarsérfræðingur og sér um allt tengt tækninni, og virðist hafa endalausa þolinmæði fyrir konunni sinni sem er stundum eins og hún sé frá steinöld.
Spilin eru tvö. Það er Lestrar Flóðhestar Lottó - minnisspil sem er fyrir 4 ára og eldri. Í því eru nokkrar útgáfur af samstæðu spilum sem samanstanda af orðaspilum og myndaspilum og þau er hægt að spila á marga vegu. Svo er það Lestrar Flóðhestar Sláðu slaginn sem er fyrir 6 ára og eldri. Það er aðeins meira hraðaspil sem gengur út á að safna sem flestum spilum, og er mjög fjörugt og skemmtilegt. Spilin eru framleidd á Íslandi og svansmerkt.
Við erum að fjármagna smá hluta af framleiðslunni á Karolina Fund og þar er hægt að kaupa spilið áður en það kemur í búðir, á aðeins lægra verði. Einnig er hægt að fylgjast með Lestrar Flóðhestum á Facebook, Instagram og www.lestrarflodhestar.is. Við erum afskaplega þakklát fyrir hvert einasta framlag og okkar von er að aðrar fjölskyldur og börn eigi eftir að skemmta sér og læra smá í leiðinni.