Lilli Tígur og vinir hans lenda í margvíslegum ævintýrum á YouTube. Grettir Thor Árnason, fimm ára, og mamma hans, Þórhildur Stefánsdóttir, safna nú fyrir framleiðslu á fleiri ævintýrum Lilla Tígurs á Karolina Fund. Um er ræða barnaefni fyrir börn á aldrinum 2-6 ára.
Þórhildur er lærður vef- og menningarmiðlari og hefur unnið við ýmsa miðlun m.a. hjá auglýsingastofum, Háskóla Íslands og stofnunum síðastliðinn ár. Grettir Thor 5 ára hefur frá því hann var lítill verið iðinn við að búa til sögur, setja upp ýmsar senur og leikstýra fólki. Þau hafa nú þegar gefið út myndband sem sló í gegn hjá vinum og vandamönnum og rataði í fjölmiðla.
Grettir hafði verið veikur heima í nokkra daga og farið að leiðast þegar hann fékk þá hugmynd að búa til myndband með dýrum í.
„Grettir hefur alltaf verið mikið fyrir dýr og veit til að mynda nöfnin á miklu fleiri dýrum en ég. Hann vissi þó að ég kynni betur á myndavélina og leitaði því til mín með aðstoð við framleiðsluna,“ segir Þórhildur.
Stuttu síðar var hann búinn að stilla upp leikmynd fyrir myndband um lítið tígrisdýr sem fékk nafnið Lilli Tígur. Í myndbandinu er Lilli Tígur á gangi með foreldrum sínum þegar þau þurftu að fara yfir vatn með fullt af sjódýrum ofan í.
*ATH* Þau sem hafa ekki séð myndbandið ættu ekki að lesa lengra því í myndbandinu gerist sá harmleikur að foreldrar Lilla Tígurs deyja.
Þema verkefnisins er að leyfa Lilla Tígur að vera ævintýragjörnum en á sama tíma reyna að stuðla að jákvæðum upplýsingum til áhorfenda. Í myndböndunum verður fjallað um mhverfismál, vináttu og ólíka menningarheima og munu þau höfða til 2-6 ára barna.
Nú hefur Lilli Tígur hug á að halda út í heim og lenda í fleiri ævintýrum og hefur því verið sett upp söfnun fyrir framleiðslu á fleiri myndböndum af Lilla Tígur og vinum hans á www.karolinafund.is.
Þórhildur og Grettir eru spennt að framleiða meira efni, en vilja gera enn betur.
Þau vilja fá fleiri raddir með, leita til sérfræðinga með aðstoð við handritsgerð og frásögn og leggja mikla áherslu á að það sé íslenskt efni aðgengilegt á Youtube fyrir börnin á Íslandi.
Hér má styrkja Lilla Tígur og vini hans.