Ólöf Arnalds hóf sólóferil sinn með hinni rómuðu „Við og við.“ Á erlendri grundu var „Við og við“ valin ein af bestu plötum ársins af Paste Magazine og eMusic valdi hana eina af bestu plötum fyrsta áratugarins. Ólöf hefur síðan gefið út plöturnar Innundir skinni, Sudden Elevation og Palme. Hún hefur leikið á tónleikum víðsvegar um Evrópu, Bandaríkin og Ástralíu og komið fram í útvarpi og sjónvarpi. Fjöldi erlendra miðla hafa fjallað um Ólöfu og verk hennar. Mætti þar nefna The New York Times, The Guardian, Vanity Fair, Paste, BBC, KEXP og Uncut.
Hún hefur nú samið öll lögin sem eiga að vera á fimmtu breiðskífu hennar, sem mun bera nafnið „Tár í morgunsárið“ og verður á íslensku. Ólöf safnar nú fyrir upptöku hennar á Karolina Fund.
Að sögn Ólafar eru yrkisefni hennar yfirleitt mjög persónuleg. „Ég hef eiginlega aldrei kunnað neitt annað. Gítar og rödd verða í aðal hlutverki en svo verða líka önnur hljóðfæri þar sem mig langar og þar verða vel valdir hljóðfæraleikarar í hverju rúmi.“
Hún segir að á nýju plötunni sé hún á einhvern hátt að snúa aftur heim. „Textarnir verða á íslensku og upptökurnar í Sundlauginni. Ég er ótrúlega þakklát fyrir góðar viðtökur núna strax í byrjun söfnunarinnar og vona að það haldi áfram að ganga svona vel!“