Fríða Dís Guðmundsdóttir gaf nýverið út sína aðra sólóplötu sem ber heitið Lipstick On og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda. Fríða var áður í hljómsveitum á borð við Klassart, Eldum og Trilogiu en leggur nú ofuráherslu á sínar eigin lagasmíðar. Á döfinni eru tvennir útgáfutónleikar Lipstick On í október, einir í Hljómahöll og aðrir á Sirkus en hægt er að næla sér í miða á tónleikana í Hljómahöll á tix.is.
Aðspurð um hvernig hugmyndin að Lipstick On hafi kviknað segir Fríða að listagyðjan hafi verið henni ansi gjöful undanfarin tvö ár. „Lipstick On verður í rauninni til út frá annari plötu sem ég hafði þegar samið og byrjuð að hljóðrita. Lögin héldu samt áfram að streyma til mín og allt í einu var ég komin með banka af lögum sem áttu ekki beint saman. Ég var að viðra hugmyndir mínar og vandræðast með að ráðast í að hljóðrita 20 laga plötu þegar Haraldur Sveinbjörnsson félagi minn spyr mig hvort ég sé kannski að vinna í tveimur plötum. Auðvitað! Eftir að ég stokkaði lögunum upp var það deginum ljósara að ég væri með tvö nokkuð ólík verk á prjónunum og þegar strúktúrinn var kominn var auðveldara að stilla lögunum saman og semja fleiri til að skapa tvö heildstæð verk. Lipstick On er annað þeirra.“
Fríða segist elska rómansinn við að hlusta á tónlist á físísku formi. Endurkomnar vinsældir vínylplötunnar á undanförnum árum henti því en Fríða vill líka gefa plötuna sína út á kasettu. „Það gerir persónulega mikið fyrir mína tónlistarupplifun og ég vil því geta boðið fólki að njóta minna verka á þennan hátt. Á plötunni er líka að finna lag sem heitir Cats & Cassettes og því kom ekki annað til greina en að framleiða 50 kasettur í stíl. Sjálf hlustaði ég mikið á kasettur í æsku og alveg fram eftir unglingsaldri, mamma gaf mér t.d. kasettur með Elvis Presley og Roy Orbison og svo fór ég ekki út úr húsi nema með aðra plötu Prodigy, Music for the Jilted Generation, í vasadiskóinu. Ég safnaði fyrir vínylútgáfu fyrstu plötunnar minnar, Myndaalbúm, hjá Karolina Fund og hef af því góða reynslu og ákvað því að fara aftur þessa leið til að standa undir útgáfukostnaði.