Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, spurði hvort ekki væri hægt að finna fjármagn til þess að útrýma sárafátækt hér á landi líkt og tekist hefði að finna fjármagn fyrir þær efnahagsaðgerðir sem ráðist hefur verið í í kjölfar kórónuveirufaraldursins. Í fyrirspurn sinni til Bjarna Benediktssonar vitnaði Guðmundur í fyrri umræður þar sem Bjarni spurði hvar ætti að fá fjármagnið til þess að útrýma fátækt.
Guðmundur taldi upp nokkrar þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur ráðist í vegna kórónuveirufaraldursins sem kostað hafa um 80 milljarða á síðustu mánuðum. Hann talaði einnig sérstaklega um ferðamenn sem þurfa að dvelja á sóttkvíarhóteli með fæði en kostnaðurinn er greiddur úr ríkissjóði.
„Þegar þessi útgjöld voru sett á, kom hæstvirtur fjármálaráðherra hér upp í ræðupúlt og spurði hvar í ósköpunum við eigum að fá peninga til að gera þetta? Ég minnist þess ekki,“ sagði Guðmundur meðal annars í ræðu sinni.
Verðmætum bjargað með efnahagsaðgerðum
Bjarni tók undir það að hér byggju of margir sem ekki ná endum saman. Stuðningur við þennan hóp væri samt sem áður til staðar. „En við höfum verið að styðja betur við bakið á þessum hópum. Við höfum gert það með ýmsum hætti. Við getum nefnt sem dæmi fjóra milljarða sem við tókum sérstaklega til hliðar í þessari ríkisstjórn í þessum tilgangi á þessu kjörtímabili og það hefur verið þannig að við höfum hækkað um næstum því helming stuðning úr almannatryggingakerfinu á undanförnum tæpum áratug og kaupmáttur bóta hefur aldrei verið hærri en í dag, aldrei.“
Þá benti Bjarni á að efnahagsaðgerðirnar hefðu verið fjármagnaðar með lánum. „Við teljum að með því að gera það þá séum við að bjarga verðmætum þannig að ég held að það verði bara að horfa til þess að við erum að reka ríkissjóð hér með geigvænlegum halla og hugmyndir um að afnema allar tekjutengingar, svo dæmi sé tekið, kosta tugi milljarða,“ bætti hann við.
Hann sagði lausnin væri að halda áfram að skapa mikil verðmæti og að kraftmikið atvinnulíf hér á landi væri forsenda þess að hægt væri að stoppa í götin í velferðarkerfinu.
Hafragrautur á morgnanna og hafragrautur síðdegis
Guðmundur Ingi sagði fjóra milljarða í málaflokkinn vera dropa í hafið. Í kjölfarið vitnaði þingmaðurinn í samtal sitt við einstætt foreldri: „Einstætt foreldri sagði við mig nýlega: „Hafragrautur á morgnana og hafragrautur seinnipartinn eftir fimmtánda hvers mánaðar.“ Þá er fjármagnið búið og þá getur viðkomandi, eftir að hafa borgað leigu og önnur útgjöld, ekki haft efni á öðru fæði og hann kórónaði það og sagði: „Helgar? Þá er hafragrautur líka. En þá notum við þurrkaða ávexti, rúsínur og annað og kanil til að fá tilbreytingu og lúxus.““
Að mati Guðmundar hafi engum verðmætum verið bjargað með því að greiða fyrir dvöl ferðamanna á sóttkvíarhótelum sem hingað koma. Betur færi á því að bjóða fátækum einstaklingum að dvelja á hóteli í fimm daga og borða ókeypis.
Margar hafragrautsskálar
Bjarni benti á að snúið væri að leggja mat á stöðuna út frá einstöku dæmi. „Maður vill skilja hvað er á bak við. Maður vill skilja hverjar eru tekjurnar, hverjir eru tekjustraumarnir, hvort viðkomandi er virkur á atvinnumarkaði eða ekki?“
Til að nefna eitt dæmi, sagði Bjarni, þá hefði ríkisstjórnin breytt barnabótum þannig að einstætt foreldri með tvö börn og 300 þúsund krónur í mánaðartekjur fengi nú meira en 100 þúsund krónur til viðbótar í barnabætur á ári.
„Ef að háttvirtur þingmaður vill mæla það í hafragrautsskálum þá eru þetta margar hafragrautsskálar.“