Þetta er langt ferðalag. En það tekur samt ekki nema eina mínútu. Og þú getur setið heima í stofu á meðan á því stendur. Engu að síður munt þú sjá það sem hinn stórfenglegi og gríðaröflugi WEBB-sjónauki hefur myndað í allt að 2.000 ljósára fjarlægð. Þú munt svífa í gegnum stjörnuþokur, sjá ótal stjörnur og litbrigði, rétt eins og þú sért að keyra í gegnum þétta snjókomu á vetrarnóttu.
Myndbandið er auðvitað rétt aðeins kynning á því sem WEBB-stjörnusjónaukanum er mögulegt að gera. Draga okkur lengst út í geim, lengra en nokkru sinni fyrr. Til að búa til myndbandið setti Evrópska geimferðarstofnunin (ESA) saman tugi stakra mynda sem teknar hafa verið með sjónaukanum svo það er engu líkara en að þú sért að nota hann sjálf.
Hann hefur nú þegar myndað fyrirbæri sem eru mun lengra í burtu en við fáum að kynnast í myndbandinu eða í tæplega 5 milljarða ljósára fjarlægð eða líkt og Sævar Helgi Bragason, helsti sérfræðingur okkar í stjörnufræðum sagði: Nýtt skeið í stjarnvísindum er hafið með WEBB-sjónaukanum.
Hér að neðan getur þú horft á myndbandið.
Góða ferð!