Árið 2014 verður að öllum líkindum heitasta almanaksár síðan mælingar á meðalhita Jarðar hófust árið 1880. Samkvæmt frumgögnum NASA var meðallofthiti Jarðar í október var jafn mikill og hann var 2005 og deilir því efsta sæti yfir hlýjustu októbermánuði. Japanska veðurstofan mældi október hins vegar hlýjasta októbermánuð þegar litið er til meðalhita Jarðar.
Japönsku gögnin sýna að að meðalhiti í október ár hvert hafi hækkað alveg síðan 1890, þegar fyrstu mælingar Japana voru gerðar. Undanfarin aldarfjórðung hefur metið svo reglulega verið slegið. Frá þessu er meðal annars greint á vef Mashable.
Septembermánuður þessa árs var einnig heitasti septembermánuður síðan mælingar hófust auk þess sem að tímabilið frá júní og út ágúst var það hlýjasta sem mælst hefur. Vísindamenn telja þetta marka ákveðin þáttaskil í hitastigssögu Jarðar, en síðustu 15 ár hefur hægst nokkuð á hækkun hitastigs, meðal annars vegna kælingar heimshafanna. Nú virðast höfin vera að hitna á ný.
Meðalhitastig á Jörðinni í október 2014 samkvæmt frumgögnum yfirborðshitamælinga NASA.
Mælingar á hitastigi heimshafanna í september hafa jafnframt aldrei skilað hærri niðurstöðum en í ár. Þannig var meðalhiti hafanna 16,17°c í september. Ekki nóg með að það hafi verið langhæsta mæling síðan 1880 heldur hefur það gildi lengstu spönn frá meðaltali, þó litið sé til allra gagnapunkta.
Haf- og loftslagsrannsóknarstofnun Bandaríkjanna (NOAA) hefur þegar gefið út gögn sem sýna fram á að 2014 geti orðið hlýjasta ár í sögunni. Til þess þurftu október, nóvember og desember aðeins að vera hlýrri en meðaltal þessara mánaða á 21. öldinni. Verði þessir mánuðir jafnhlýir og meðaltal 21. aldar verður 2014 jafnt árunum 1998 og 2010 í efsta sæti yfir heitustu árin síðan 1880. Nú er ljóst að meðalhiti nóvember og desember þarf að vera nokkuð lágur til að 2014 verði ekki metár.
Loftslagsmál ekki á dagskrá G20
Obama á fundinum í Brisbane. Umræðuefnin eru æðiflókin. Allt frá staðbundnum átökum í Austur-Evrópu í hnattræn vandamál.
Þessa dagana fer fram ráðstefna 20 stærstu iðnríkja heims í Brisbane í Ástralíu. Loftslagsmál eru ekki á formlegri dagskrá funda leiðtoganna sem varð meðal annars til þess að gerð voru mótmæli á götum Brisbane í lok vikunnar.
Barack Obama Bandaríkjaforseti flutti þó ræðu í háskóla í Queensland á laugardagsmorgun þar sem hann fullyrti að hægt væri að gera sáttmála um loftslagsmálin milli stærstu iðnríkja heimsins. Hann sagði það í raun skyldu hvers ríkis að gera sitt. „Engin þjóð er ónæm og allar þjóðir þurfa að leggja sitt af mörkum,“ sagði Obama í ræðu sinni.
„Ef Kína og Bandaríkin geta komist að samkomulagi um þetta þá getur heimurinn það líka, við getum klárað þetta og það er mikilvægt að við klárum þetta.“
Í ræðunni staðfesti Obama þær fregnir sem The Guardian hafði flutt í gær um að Bandaríkin myndu veita þremur milljörðum dollara í Græna loftslagssjóðinn. Sjóðurinn er á vegum Sameinuðu þjóðanna og úr honum verður veitt til verkefna sem eiga að vega á móti loftslagsbreytingum af völdum manna. Obama hvatti jafnframt aðrar þjóðir til að veita sjóðnum fé, enda hefðu Bandaríkin margt sameiginlegt með öðrum stórum iðnveldum, meðal annars loftslagsvandann.
Skemmst er að minnast undirritunar samkomulags milli Kína og Bandaríkjanna um að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið á miðvikudag. „Ástæðan fyrir því að þetta [undirritun samkomulagsins] er svo mikilvægt er að ef Kína þróast í þá átt að hafa sama magn útblásturs á hvern íbúa og þróuð ríki eins og Bandaríkin og Ástralía, þá mun plánetan okkar ekki eiga séns því í Kína búa mun fleiri,“ sagði Obama í ræðu sinni.
„Að setja þeim markmið sendir kröftug skilaboð til heimsins um að öll ríki, þróuð eða vanþróuð, verða að komast yfir gamlan ágreining, horfa blákalt á vísindin og komast að góðu samkomulagi um loftslagsmál á næsta ári. Ef Kína og Bandaríkin geta komist að samkomulagi um þetta þá getur heimurinn það líka, við getum klárað þetta og það er mikilvægt að við klárum þetta,“ sagði Obama ennfremur.
Ræða Obama í háskólanum í Brisbane
https://www.youtube.com/watch?v=52ZPlDSmEj4