Royal Bank of Scotland (RBS) tapaði 134 milljónum punda á þriðja ársfjórðungi, eða sem nemur um 26 milljörðum króna. Þetta er viðsnúningur frá sama tíma í fyrra, þegar bankinn hagnaðist um 1,1 milljarða punda, eða tæplega 210 milljarða króna.
Frá því að breska ríkið bjargaði rekstri bankans, með 46 milljarða punda framlagi haustið 2008, hefur bankinn gengið í gegnum mikið hagræðingarskeið og erfiðleika. Meira en tíu þúsund störf hjá bankanum hafa verið aflögð á heimsvísu og niðurskurðurinn nemur meira en þremur milljörðum punda árlega í rekstri.
Samkvæmt tilkynningu frá bankanum, sem Reuters vitnar til í dag, þá eru frekari erfiðleikar framundan þar sem bankinn á enn eftir að gera upp gamlar syndir sínar gagnvart yfirvöldum, þrátt fyrir að breskir skattgreiðendur eigi bankann að mestu, eða 73 prósent. Bankinn hefur þegar lagt til hliðar 4,5 milljarða punda, vegna mögulegra sektagreiðslna, þar sem rannsóknir eru enn í gangi vegna meintra lögbrota bankans, einkum á markaði meða vaxtaálög á millibankamarkaði.