Róbert Wessman, forstjóri Alvogen, segir að Björgólfur Thor Björgólfsson fjárfestir ættir að „skammast sín“ vegna hans þáttar í efnahagshruni landsins. Þá sé það „hjákátlegt og beinlínis vandræðalegt“ þegar hann heldur því fram að aðrir hafi ekki borgað skuldir sínar til baka, í ljósi þess að hann hefur aðeins borgað „lítið brot“ sinna skulda til baka sjálfur. Þetta kemur fram í harðorðri yfirlýsingu frá Róberti.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans fyrr í dag, þá hélt Björgólfur Thor því fram að Róbert noti sjóði sína til að klekkja á honum í dómsölum. „Róbert hefur í digra sjóði að sækja, enda gætti hann þess vandlega að koma auð sínum undan kröfuhöfum, í stað þess að gera upp milljarða skuldir sínar við íslensku bankana eftir hrun. Auðvitað gera þeir sér engar vonir um bætur úr minni hendi, enda eina markmiðið að sverta mannorð mitt.“ Þetta kemur fram í bloggfærslu á vefnum btb.is.
Kjarninn greindi frá því á miðvikudag að félag í eigu Árna Harðarsonar, stjórnarmanns og lögmanns lyfjafyrirtækisins Alvogen, ætti um 60 prósent þeirra hlutabréfa sem eru að baki hópmálsókn sem nú er rekin gegn Björgólfi. Árni á hlutabréfin, sem hann hefur keypt af islenskum lífeyrissjóðum nýverið, í gegnum félag sem heitir Urriðahæð ehf. Samtals hefur Árni greitt á milli 25 til 30 milljónir króna fyrir hlutabréfin, sem eru verðlaus nema að til takist að fá viðurkennt fyrir dómstólum að Björgólfur Thor eigi að greiða fyrrum hluthöfum Landsbankans skaðabætur. Til viðbótar þarf Urriðhæð að greiða sinn hluta málskostnaðar. Hann gæti hlaupið á tugum milljóna króna.
Róbert segir í yfirlýsingu sinni að hann hafi hætt að vinna með Björgólfi Thor vegna þess að hann kærði sig ekki um að vera viðloðandi viðskiptasiðferði hans og félaga hans lengur.
Róbert og Björgólfur Thor hafa deild opinberlega um hin ýmsu mál, alveg frá því að leiðir skildu í viðskiptasambandi þeirra. Hafa málin ratað oftar en einu sinni fyrir dómstóla, og sér ekki fyrir endann á þeim deilum.
Yfirlýsingin fer hér að neðan í heild sinni:
„Vegna ummæla sem Björgólfur Thor Björgólfsson viðhefur á vefsíðu sinni í dag um starfslok mín hjá Actavis, er mér bæði ljúft og skylt að koma eftirfarandi á framfæri:
Ástæður þess að ég hafði ekki lengur áhuga að starfa með Björgólfi Thor og hans viðskiptafélögum var augljós. Viðskiptasiðferði þeirra er með þeim hætti að ég kærði mig ekki um að vera viðloðandi það lengur. Einhverjar aðrar eftiráskýringar hans hafa enga merkingu.
Allir vita að Björgólfur Thor átti eignarhlut í fjölda fyrirtækja hér á landi sem fóru í þrot. Hann átti sem viðskiptamaður og einn stærsti eigandi Landsbankans sinn þátt í hruni krónunnar, með afleiðingum fyrir land og þjóð sem við erum enn öll að að vinna okkur út úr.
Öllum má jafnframt vera ljóst, að þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að halda öðrum fram, hefur Björgólfur Thor ekki gert upp nema örlítið brot af skuldum sínum og sinna fyrirtækja. Það er því hjákátlegt og beinlínis vandræðalegt þegar því er haldið fram af hans hálfu að aðrir hafa ekki staðið skil á skuldum sínum.
Að mínu mati ætti Björgólfur Thor að hafa vit á að skammast sín fyrir sinn þátt í að koma Íslendingum í þann fjárhagslegan vanda sem raunin varð, og hætta að reyna að endurskrifa söguna sér í hag. Það sjá allir í gegnum það.“