Verðbólga mælist nú 1,8 prósent og hefur verið undir 2,5 prósent lögbundnu verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands í meira en átján mánuði. Svo langt tímabil undir markmiði þekkist varla í hagsögunni í seinni tíð.
Stöðugleiki og alþjóðamarkaðir
En hvers vegna hefur verðbólga verið svona lág, sé miðað við stöðu mála hér á landi? Fjármagnshöftin eru lykilatriði hvað þessa stöðu varðar, þar sem þau hafa gert Seðlabankanum það kleift að koma á stöðugleika í gengismálum, og stýra þannig hagkerfinu með áhrifameiri hætti en ella væri hægt. Þetta hefur í reynd skipt sköpum, samhliða sífellt meira gjaldeyrisinnstreymi, meðal annars vegna vaxtar í ferðaþjónustunni.
Þá hefur hrávöruverð einnig sett mikið strik í reikninginn, en verð á olíu hefur lækkað um ríflega 60 prósent á síðustu fjórtán mánuðum. Verðið á hráolíu var um tíma í fyrra 110 Bandaríkjadalir á tunnu en það hefur sveiflast í kringum 45 Bandaríkjadali að undanförnu. Þetta hefur leitt til verðlækkunar á ýmsum öðrum vörum, enda olía grundvallarforsenda í margvíslegum rekstri og framleiðslu. Þetta hjálpar til við að halda verðbólgunni í skefjum.
Ekki búist við óstöðuguleika á genginu
Ekki er búist við því að þau skref sem stigin verða á næstunni, þegar kemur að losun fjármagnshafta, muni valda óstöðugleika á gjaldeyrismarkaði, að því er fram kom í máli Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra, þegar hann kynnti samkomulag við kröfuhafa hinna föllnu banka og greiðslur slitabúa með svokölluðu stöðugleikaframlagi, til að liðka fyrir gerð nauðasamninga til að gera undanþágu frá fjármagnshöftum mögulega. Samtals munu slitabúin greiða 379 milljarða króna í stöðugleikaframlag, en seðlabankinn metur stöðu mála þannig að fjármálstöðugleika sé ekki ógnað með veitingu undanþágu. Heildar umfang stöðugleikaframlag, að öllu meðtöldu, er talið nema tæplega 500 milljörðum króna. Ljóst er að skuldastaða ríkissjóðs mun batna stórlega og miklum þrýstingi á gengi krónunnar verður aflétt með þessari aðgerð, og öðrum aðgerðum sem eru hluti af heildaráætlun um losun fjármagnshafta.
Launaþróun gæti vakið drauginn
Í yfirlýsingu Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands, frá vaxtaákvörðunardegi 30. september síðastliðinn, kemur fram að verðlagsþróun á alþjóðamörkuðum, og styrking krónunnar, hafi hægt á vaxtahækkunum. Í grunninn hafi kjarasamningar, sem hafa falið í sér 20 til 30 prósent launahækkanir á næstu þremur árum, ýtt undir það að verðbólga muni aukast mikið og vextir hækka sömuleiðis. Ekki sé innistæða fyrir svo miklum og hröðum hækkunum launa. „Verðbólguhorfur til lengri tíma litið hafa því ekki breyst umtalsvert þótt nærhorfur séu betri. Niðurstaða kjarasamninga og tiltölulega háar verðbólguvæntingar benda eftir sem áður til þess að verðbólga muni aukast á næstu misserum. Á móti kemur lækkun alþjóðlegs vöruverðs og tæplega 4% hækkun á gengi krónunnar frá síðustu vaxtaákvörðun þrátt fyrir mikil gjaldeyriskaup Seðlabankans [...] Aukist verðbólga í framhaldi af kjarasamningum svipað og spár benda til mun peningastefnunefndin þurfa að hækka vexti frekar eigi verðbólgumarkmiðið að nást til lengri tíma litið. Hve mikið og hve hratt ræðst af framvindunni og því hvernig greiðist úr þeirri óvissu sem nú er til staðar. Sterkari króna og alþjóðleg verðlagsþróun hefur gefið svigrúm til að hækka vexti aðeins hægar en áður var talið nauðsynlegt en breytir ekki þörf fyrir aukið aðhald á næstu misserum,“ segir í yfirlýsingunni.
Verður gengið hægt um gleðinnar dyr?
Hagstjórnin verður krefjandi á næstu misserum, þrátt fyrir að það verði að teljast mikill léttir fyrir hagkerfið ef tekst að losa um fjármagnshöft og stórbæta skuldastöðu ríkissjóðs, samhliða því að vandi vegna slitabúa föllnu bankanna og aflandskróna verður leystur. Á innan við þremur mánuðum hefur verið leyst endanlega úr stórum málum sem glím hefur verið við frá hruni. Icesave-málið er úr sögunni, skuldir við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn hafa verið greiddar upp og nú hefur lausn náðst í greiðslujafnaðarvanda sem snéri að slitabúunum, eins og áður segir. Óhætt er að segja, að allt séu þetta jákvæðar fréttir sem miklu breyta til góðs.
Bjarni Benediktssonar líkti þessum tímamótum við það, að sólargeisla væri nú hleypt inn í hagkerfið. Um margt virðast það orð að sönnu, en hætturnar eru þó fyrir hendi, einkum og sér í lagi þegar kemur að verðbólguþrýstingi innanlands.
Þrýstingur til hækkunar verðbólgu er töluverður vegna launahækkana, og má nefna hækkun á opinberri þjónustu sveitarfélaga sérstaklega sem þátt sem fólk gæti fundið fyrir á næstu misserum. Launakostnaður er stór hluti af rekstrarkostnaði sveitarfélaga, og því munu mörg sveitarfélög þurfa að bregðast við með gjaldskrárhækkunum og aukningu tekna, til þess að ná endum saman. Svigrúm er ekki mikið til annars.
Alþjóðleg þróun gæti auk þess stuðlað að hækkun verðbólgunnar, og er nærtækast að nefna olíuna í þeim efnum. Ef hún fer að hækka aftur, þá gæti það skilað sér fljótt í hærra olíuverði á Íslandi og einnig í hærra verði á öðrum innfluttum vörum, í ljósi þess hve mikil áhrif olíuverðið hefur á undirliggjandi kostnað í ýmsum geirum. Ef að olíuverð hækkar um tíu prósent, svo dæmi sé tekið, þá gæti það komið á versta tíma fyrir aðstæður hér á landi þegar innlendur kostnaður er að hækka hratt. Samspil innlendrar og erlendrar þróunar gæti skapað töluvert krefjandi aðstæður á næstunni, eins og Seðlabankinn hefur raunar bent á. En það er ekkert nýtt fyrir íslenska hagkerfið, sem þekkir þá stöðu vel, þegar verðbólgudraugurinn er byrjaður að hlaða batteríin. Hins vegar er vandi að spá fyrir um hvernig verðbólguaukningin kemur fram, og hvenær.