Þið hafið heyrt um sjónvarpsseríuna Narcos, er það ekki? Gerist í Kólumbíu árið 1992; meginstefin eru ofbeldi, eiturlyf og almenn spilling. Í lok síðustu aldar voru þetta lykilorðin sem flestir tengdu við landið Kólumbíu. Höfuðborgin Bogota var gjarnan kölluð ein af verstu borgum í heimi. Mitt í allri spillingunni stóðu hins vegar upp tveir óháðir stjórnmálamenn sem áttu eftir að breyta ásýnd og anda borgarinnar. Það byrjaði allt á því að háskólarektor sýndi 2000 stúdentum rassinn. Bókstaflega.
Síðustu helgi var annar af þessum tveimur verið kjörinn borgarstjóri á ný og hefur sögulegt tækifæri til að breyta borginni til batnaðar. Nú er nefnilega sterkur meðbyr í friðarviðræðum Kólumbíustjórnar við FARC-skæruliðana. Á miðvikudaginn var samþykkti Juan Santos, forseti Kólumbíu, vopnahlé við FARC-skæruliðana. Í september var gert samkomulag um rannsókn og refsingar fyrir stríðsglæpi, eitt af mörgum lykilskrefum í átt að varanlegum friði. Vonir standa til að með vorinu ljúki þessu lengsta skæruliðastríði Suður-Ameríku, sem hefur staðið í ríflega hálfa öld.
Santos Kólumbíuforseti vonast til að friðarsamningar verði undirritaðir í mars á næsta ári.
Andlegur faðir Jóns Gnarr
Aftur til Bogotá. Árið er 1993. Antanas Mockus er rektor í Universidad Nacional de Colombia. Örvænting yfir þjóðfélagsmálum og ástandi háskólans veldur stöðugum óeirðum í háskólanum. Mockus stendur á sviðinu í aðalsal háskólans en það heyrist ekkert í honum fyrir ólátum. Stúdentarnir ætla enn einu sinni að búa hann niður af sviðinu.
Til þess að fá þögn varð hann að koma þeim í opna skjöldu. Um kvöldið sýndu allar sjónvarpsstöðvar hvernig hann greip fumlaust um beltissylgjuna, leysti niður um sig buxurnar og glennti beran afturendann út í háskólasalinn. Mockus neyddist til að segja af sér eftir þetta.
Svo leið að sveitarstjórnarkosningunum 1995. Almenningur var búinn að fá nóg af spilltum stjórnmálamönnum og kosningaloforðum sem eru orðin tóm. Fólk vildi fá “el loco Antanas” sem borgarstjóra.
Í kosningabaráttunni leiddist hann út í hópslagsmál í miðjum kappræðum og hoppaði um borgina í ofurhetjubúningi og tíndi rusl. Það var kannski einmitt þetta sem gerði að fólk treysti honum. Hann var bara venjulegur maður, ekki hluti af fágaðri og spilltri stjórnmálaelítu.
Narcos dregur upp mynd af eiturlyfjahringnum Medellin og höfuðpaurnum Pablo Escobar, alræmdasta Kólumbíumanni fyrr og síðar. Margt hefur breyst til batnaðar í Kólumbíu síðan hann var og hét.
Trúðslæti með alvarlegum undirtóni
Mockus er stærðfræðingur að mennt, heimspekingur af ástríðu og kennari í eðli sínu. Hann notaði næstu fjögur árin í að breyta því hvernig borgarbúar hugsa og haga sér. Hann vildi að fólk gerði sér betur grein fyrir því að landlægt ofbeldi og mannskæð umferð ætti að allnokkru leiti rætur í hegðan almennings.
Til að kenna bætta hegðun í umferðinni réði hann látbragðsleikara til að stjórna umferðinni, hrósa þeim sem hegðuðu sér vel og hæðast að þeim sem brutu reglurnar. Háð og spé hefur sterkari fælingarmátt í Bogotá en umferðarsektir, sagði hann. Á nokkrum árum fækkaði dauðaslysum í umferðinni um helming. Þegar vatnsskortur svarf að borginni bauð hann sjónvarpsfólki með sér í sturtu og ráðlagði fólki að skrúfa fyrir vatnið meðan það setti sjampó í hárið. Vatnsveita borgarinnar segir að vatnsnotkun hafi minnkað um 40% eftir að fólk fór að huga að vatnsnotkuninni.
Gjörningur sem vekur til umhugsunar
Hann skar upp herör gegn ofbeldi, sérstaklega heimilisofbeldi. Sjónvarpsmyndavélarnar sýndu hann gefa börnum og fullorðnum „bólusetningu við ofbeldi”. Allir fengu nokkra saltvatnsdropa á tunguna. Þetta kann að hljóma eins og barnalegur gjörningur, en aðalatriðið var að ná athygli fólks. Sjónvarpsmyndavélarnar voru mættar á staðinn og fréttastofurnar sendu líka út orðin sem hann beindi til fullorðinna um að draga djúpt andann áður en tilfinningarnar leiddu fólk til ofbeldis.
Heimildarmyndin Cities on Speed – Bogota Change lýsir því hvernig Antanas Mockus náði að hrífa borgarbúa í Bogotá með sér, frá rassasýningum til gulrótalaganna og ofbeldisbólusetninga. Seinni hluti myndarinnar fjallar um arftaka hans, Enrique Peñalosa, sem nú er nýendurkjörinn borgarstjóri.
Eitt það síðasta sem hann gerði í embætti var að biðla til ríkari íbúa Bogotá um að borga 10 prósent aukaskatt af fúsum og frjálsum vilja. Margir hnussuðu og höfðu enga trú á tiltækinu en þurftu að éta hattinn sinn. Peningarnir streymdu inn, um tvær milljónir Bandaríkjadala, til marks um vinsældir og tiltrú fólks á borgarstjóranum.
Harkalegt en áhrifaríkt
Árið 1998 var komið að næsta hugsjónamanni í borgarstjórastólnum. Enrique Peñalosa tók við góðu búi, bæði fjárhagslega og samfélagslega, eftir vitundarvakningu Mockusar. Peñalosa byggði líka á heimspeki með almannahagsmuni að leiðarljósi, en nú véku gjörningar og hugvekjur Mockusar fyrir áþreifanlegri andlitslyftingu.
Peñalosa vildi að borgarskipulagið gefi öllum borgarbúum jöfn tækifæri. Í fátækrahverfum Bogotá skorti hreint vatn og rafmagn. Skólarnir gátu ekki tekið á móti öllum börnum. Hann réðst til verks. Hann hlaut gagnrýni fyrir að taka lóðir eignarnámi og rífa niður byggingar í fátækrahverfunum með stuttum eða engum fyrirvara til að byggja betra húsnæði.
Þó má segja honum til tekna að hann hélt síður en svo hlífiskildi yfir ríkum. Í miðri Bogotá gátu ríkustu borgarbúarnir áður fengið aðgang að flennistórum einkagarði sem tilheyrði ríkmannaklúbbi. Þann garð tók Peñalosa eignarnámi, reif niður girðingarnar og setti upp leik- og íþróttasvæði til að almenningur gæti notið grænna svæða í miðri Bogotá
Borg þar sem hinir ríku taka strætó
Ásýnd borgarinnar hafði ekki breyst mikið í valdatíð Mockusar, en nú tók hún stakkaskiptum. Stærsti þyrnirinn í augum Peñalosa var bílaumferðin. Hinir fátækustu treysta á tilviljanakenndar einkareknar strætóferðir, sem taka langan tíma því umferðin er svo þung. Markmið hans er “ekki að hinir fátæku geti keyrt um í bílum, heldur að hinir ríku séu til í að taka strætó”.
Aðalumferðaræðunum var deilt upp. Þar sem áður var margra akreina haf af einkabílum voru tvær akreinar í miðjunni teknar undir hraðstrætókerfið Transmilenio. Strætóarnir sátu ekki fastir í umferðinni og farþegar svifu milli borgarhluta. Ferð sem áður tók rúma tvo tíma styttist nú um rúman helming. Kerfið hefur æ síðan verið ákaflega vinsælt og hefur sífellt sprengt utan af sér allar umbætur og viðbætur, með allt að einni og hálfri milljón notenda á dag.
Við hlið bílaumferðarinnar komu hjólahraðbrautir. Og það voru ekki krampakenndar tilraunir, með 200 metra hjólastígabútum á stangli, eins og þekkist í sumum borgum. Ónei. Hann gekk ákveðið til verks og lét á þremur árum leggja 300 kílómetra af hjólastígum meðfram aðalumferðaræðum borgarinnar.
Til að draga úr umferð á háannatímum setti hann upp kerfi, Pico y placa, þar sem fólki var bannað að keyra á háannatíma tvo daga í viku, til skiptis eftir síðasta tölustaf í bílnúmerinu. Enn þann dag í dag má til dæmis ekki keyra bíla með númer sem enda á 8 á háannatíma á mánudögum og fimmtudögum. Þetta er ekki fullkomið kerfi. Ríkir borgarbúar hafa komist fram hjá því með því að eiga tvo bíla, svo þeir geti alltaf keyrt a.m.k. annan þeirra. En það dró verulega úr umferð fyrst eftir að það var kynnt.
2015: Peñalosa verður borgarstjóri á ný
Um nýliðna helgi voru sveitarstjórnarkosningar í Kólumbíu og þar bar til tíðinda að Peñalosa náði á ný kjöri sem borgarstjóri í Bogotá. Síðustu tólf árin hefur vinstriflokkurinn Polo verið við völd og hvert spillingarmálið rakið annað. Síðustu fjögur árin hafa sex borgarstjórar komið og farið, eftir að Samuel Rojas var sviptur embætti fyrir frændhygli og aðra spillingu.
Fyrir tveimur árum var Bogotá kosin versta borg Suður-Ameríku til að búa í, (þó það mat hafi síðar verið dregið í efa). Umferðin er verri en hún var og glæpamenn eiga til að brjótast inn í bíla sem sitja fastir í umferð. Þó glæpatíðnin hafi lækkað verulega síðan í lok síðustu aldar, þá er hún enn há. Transmilenio strætóarnir eru svo fullir að fólk sér vasaþjófa stela eigum sínum en getur ekki að því gert því hendurnar eru klemmdar með síðum. Þá man fólk eftir Peñalosa og vonar að hann bjargi málum. Miðað við alla styrkina sem runnu í kosningasjóð hans frá byggingafyrirtækjum, þá búast líklega margir við stórræðum þegar hann kemur til valda aftur.