Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar lagði í dag fram frumvarp til laga um breytingu á lögum um nauðasamningsgerð slitabúa fallina fjármálafyrirtækja sem felur meðal annars í sér að frestur þeirra til að ljúka slitum er framlengdur til 15. mars 2016. Samkvæmt gildandi lögum eiga búin að klára slit sín fyrir lok árs 2015 annars fellur á þau 39 prósent stöðugleikaskattur.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagði frá því í síðustu viku að til stæði að lengja frest búanna þegar tilkynnt var um að Glitnir, Kaupþing og gamli Landsbankinn myndu fá undaþágu frá fjármagnshöftum til að ljúka slitum sínum gegn greiðslu stöðugleikaframlags. Alls munu búin þrjú greiða 379 milljarða króna í stöðugleikaframlag.
Auk þess munu skuldalengingar og uppgreiðsla lánafyrirgreiðslu, sem íslenska ríkið veitti nýju viðskiptabönkunum árið 2009, nema samtals 151 milljörðum króna. Þá munu endurheimtir krafna sem Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ), dótturfélag Seðlabanka Íslands ,heldur á nema 81 milljörðum króna, en félagið er stærsti innlendi kröfuhafi föllnu bankanna. Því hefur Seðlabankinn reiknað út að mótvægisaðgerðir sem gripið hafi verið til, nú og í fortíð, vegna stöðu slitabúanna, nemi 660 milljörðum króna. Þessi tala gæti hækkað ef endurheimtir af lágt metnum eignum hækka.
Breytingarnar sem nú verða gerðar eru til þess að skýra og einfalda nokkur atriði í löggjöfinni. Í nefndaráliti meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar segir að þetta sé nauðsynlegt "til að auðvelda slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja gerð nauðasamninga. Frumvarpið er því lagt fram með það að markmiði að skapa frekari forsendur fyrir því að lögaðilar sem teljast skattskyldir aðilar í skilningi laga um stöðugleikaskatt, nr. 60/2015, geti lokið þeim áfanga í slitameðferð að hafa fengið nauðasamning staðfestan af dómstólum fyrir næstu áramót."