Möguleikanum á því að hryðjuverkasamtökin Íslamska ríkið hafi grandað flugvél í Egyptalandi á laugardaginn með 224 farþegum innanborðs, hefur ekki verið ýtt útaf borðinu. Hann þykir ólíklegur, sökum þess í hvaða hæð vélin var þegar hún missti hæð, en ekkert er þó útilokað.
Enginn af þeim 224 sem var um borð í flugvél rússneska flugfélagsins Kogalymavia, í flugi númer KGL9268, komst lífs af þegar flugvélin fórst í Egyptalandi, en hún var á leið frá ferðamannastaðnum Sharm el-Sheikh við Rauðahafið til St. Pétursborgar í Rússlandi. Hún fórst um tuttugu og tveimur mínútum eftir flugtak, og segja talsmenn Kogalymavia að allt bendi til þess að vélin hafi ekki farist vegna tæknibilunar, heldur frekar skyndilegs höggs eða annarra ytri áhrifa. Yfirvöld í Rússlandi hafa ekkert viljað segja um málið, en segja of snemmt að segja til um hvað gerðist, þar sem málið sé í rannsókn, að sögn BBC.
Eftir að vélin fórst lýstu hryðjuverkasamtök, sem starfaða hafa undir verndarvæng Íslamska ríkisins, yfir ábyrgð á því að vélin fórst. Sú yfirlýsing hefur hins vegar ekki verið metin trúverðug, hvorki af yfirvöld í Egyptalandi né Rússlandi. Mikill titringur er sagður í Rússlandi vegna málsins, og eru forsvarsmenn Kogalymavia flugfélagsins sagðir undir mikilli pressu vegna málsins.
Vladímir Pútín, forseti Rússlands, hefur lýst yfir þjóðarsorg í Rússlandi og fyrirskipaði strax sjálfstæða rannsókn á orsökum þess að vélin fórst. Nær allir um borð voru Rússar, aðallega ferðamenn. Þrír einstaklingar frá Úkraínu voru um borð, af þeim 217 farþegum sem voru í vélinni. Áhöfn vélarinnar taldi sjö talsins.
Samkvæmt fréttum breska ríkisútvarpsins BBC voru 138 konur í vélinu og sautján börn á aldrinum tveggja til sautján ára. Aðstæður á vettvangi slyssins voru sagðar skelfilegar þegar björgunarmenn komu að.