Aðalsjóður Reykjavíkurborgar mun skila tapi upp á 18,2 milljarða króna á árinu 2015 samkvæmt útkomuspá og rekstur A-hluta hennar, sem samanstendur af aðalsjóði, eignasjóði og bílastæðastjóði, verður rekinn með 13,4 milljarða króna tapi. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 gerði ráð fyrir að halli á aðalsjóði yrði um fimm milljarðar króna. Því skeikar rúmum 15 milljörðum krónum á áætlun sem samþykkt var í fyrra og útkomuspánni sem lögð var fram í borgarstjórn í dag. Oddviti Sjálfstæðisflokksins segir stöðuna vera skelfilega.
Í fjárhagsáætlun borgarinnar fyrir næsta ár kemur hins vegar fram að reka eigi A-hluta með 567 milljóna króna afgangi á árinu 2016. Samstæða Reykjavíkurborgar, A- og B-hluti, á að vera rekin með 8,1 milljarða króna afgangi á næsta ári.
Segja slæman rekstur koma niður á þjónustu
Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokks, sem er í minnihluta í borgarstjórn, sendi frá sér tilkynningu vegna fjárhagsáætlunarinnar í dag. Þar segir að í áætlun ársins 2016 sé gert ráð fyrir hagræðingu á málaflokkum grunnþjónustunnar upp á 1,8 milljarða króna. „Stærstu þættir grunnþjónustu borgarinnar eru skóla- og velferðarkerfið. Það er því miður að þessi slæmi rekstur mun koma niður á þjónustu gagnvart borgarbúum“.
Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir í tilkynningu að staðan á rekstri borgarinnar sé „skelfileg“. „Ef borgin væri fyrirtæki í þeirri stöðu sem útgönguspá fyrir árið 2015 og fjárhagsáætlun ársins 2016 lýsa þá væri hluthafafundur boðaður í skyndi og skipt um stjórnendur“, sagði Halldór í umræðum um áætlunina í borgarstjórn í dag.