Nýtt sjúkrahús má byggja á betri stað en við Hringbraut, segir í skýrslu rannsóknarstofnunar atvinnulífsins við Háskólan á Bifröst. Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á morgunverðarfundi Samtaka atvinnulífsins um nýtt sjúkrahús í morgun.
Í skýrslunni segir að hagkvæmara og skynsamlegra sé út frá skipulagssjónarmiðum að byggja nýtt sjúkrahús nærri miðju höfuðborgarsvæðisins og að þar sé hægt að byggja sjúkrahús sambærileg þeim sem byggð eru á Norðurlöndum.
Með því að hætta við að byggja við núverandi byggingar við Hringbraut yrði hægt að byggja nútímalegri spítala í hærri byggingu en nú er gert ráð fyrir. „Það mun leiða til lægri byggingarkostnaðar, minna rasks og hraðari framkvæmdatíma,“ segir í skýrlsunni. Um leið væri hægt að minnka umfang vissra bygginga án þess að draga úr gæðum starfseminnar og spara sex til sjö milljarða króna.
Um eignarhald bygginganna og á dýrari lækningatækjum kemst rannsóknarstofnunin að þeirri niðurstöðu að því sé betur komið fyrir hjá sérstöku opinberu hlutafélagi. Hlutafélagið mundi svo leigja spítalanum aðstöðu og tæki. Til þess að lækka kostnað gæti Landspítalinn einnig falið öðrum að sjá um einstaka þætti starfseminnar; í skýrslunni eru nefnd atriði eins og öldrunarþjónustu, eldhús, þvottahús og myndgreiningum.
Skýrsluna má lesa hér af vef Samtaka atvinnulífsins.