Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti um 0,25 prósent. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, eru því 5,75 prósent eftir hækkunina. Frá þessu er greint í frétt á vef Seðlabankans. Seðlabankinn hækkaði síðast vexti í ágúst 2015.
Þar segir að spár geri ráð fyrir að hagvöxtur verði 4,6 prósent á þessu ári, sem sé um hálfu prósenti meira en gert hafi verið ráð fyrir í spá bankans í ágúst. Hagvöxturinn er einkum borinn upp af aukinni innlendri eftirspurn, einkaneyslu, sem talið er að muni aukastum sjö prósent á þessu ári.
Í frétt Seðlabankans segir að verðbólguhorfur til skamms tíma séu töluvert betri en Seðlabankinn spáði í ágúst en til lengri tíma litið hafi þær lítið breyst. "Því er áfram spáð að miklar launahækkanir muni leiða til þess að verðbólga fari yfir markmið er líður á næsta ár þegar dregur úr áhrifum lítillar alþjóðlegrar verðbólgu. Verðbólga mun ekki nálgast markmiðið á ný fyrr en á árinu 2018. Spáin byggist á þeirri forsendu að aðhald peningastefnunnar sé hert samhliða því að framleiðsluspenna og verðbólga aukast. Þá er einnig tekið mið af því að frumvarp til fjárlaga felur í sér nokkra slökun á aðhaldi í ríkisfjármálum að teknu tilliti til hagsveiflu.
Sterkari króna og hagstæðari alþjóðleg verðlagsþróun hefur gefið svigrúm til að hækka vexti hægar en áður var talið nauðsynlegt. Það breytir hins vegar ekki því að þörf er á auknu aðhaldi peningastefnunnar á næstu misserum í ljósi vaxandi innlends verðbólguþrýstings. Hve mikið og hve hratt það gerist ræðst af framvindunni og því hvernig greiðist úr þeirri óvissu sem nú er til staðar í efnahagsmálum. Töluverð óvissa er m.a. um miðlun peningastefnunnar um þessar mundir þar sem áhrifa óvenju lágra alþjóðlegra vaxta hefur í vaxandi mæli gætt hér á landi. Mótun peningastefnunnar mun einnig ráðast af þróun lausafjárstöðu í tengslum við losun fjármagnshafta og af því hvort öðrum stjórntækjum hagstjórnar verður beitt til þess að halda aftur af eftirspurnarþrýstingi á komandi misserum."
Stýrivextir eru helsta tæki Seðlabanka Íslands til þess að halda verðbólgu í skefjum. Ef þensla er í samfélaginu og verðbólgan há, þá hækkar Seðlabankinn stýrirvextina. Viðskiptabankarnir og sparisjóðir eiga í viðskiptum við Seðlabankann, fá hjá honum lán, og stýrivextirnir ákveða hversu hagstæð þessi lán eru fyrir bankana. Þessi vaxtakjör hafa síðan áhrif á almenna vexti á markaði, til dæmis á húsnæðislánum og öðrum lánum til almennings og fyrirtækja, vegna þess að ef lánakjör bankans hækka, þá þarf hann að bregðast við með því að hækka vexti á sínum lánveitingum.