Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að losað geti verið um fjármagnshöft í janúar, þegar fyrirhuguðu gjaldeyrisútboði fyrir aflandskrónueigendur er lokið. Strax að loknu útboðinu sé rétt að skýra frá næstu skrefum í losun hafta. „Við ætlum okkur að taka frekari stór skref og lífeyrissjóðirnir eru í forgangi meðal þeirra sem þurfa að fá afléttingu. Við opnuðum fyrir 10 milljarða króna fjárfestingu hjá þeim í ár en ég myndi telja að það þurfi að minnsta kosti að tvöfalda þá fjárhæð og kannski rúmlega það sem allra fyrst og vonandi á næsta ári.
Ef við trúum því að við séum búin að leysa greiðslujafnaðarvandann vegna slitabúanna, og að því gefnu að útboðið takist vel, þá er ekkert í ytra umhverfinu sem kallar á höft fyrir íslenska hagkerfið. Þvert á móti. Það er mikilvægt að stjórnvöld sýni sjálfstraust og trú á hagkerfið þegar verið er að stíga skref af þessum toga. Ef maður opnar litla rifu er verið að segja að maður óttist að margir muni reyna að þrýsta sér út. Ef maður opnar dyrnar upp á gátt er verið að segja: Ég hef trú á stöðu efnahagsmála og ég hef væntingar um að aðrir sjái myndina sömu augum og ég“. Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna í Viðskiptamogganum í dag.
Þjóðarhagsvarúðartæki til staðar, ekki frjálst flot
Upphaflega stóð til að halda uppboð á gjaldeyri aflandskrónueigendanna í október. Bjarni segir að það hafi líklega verið of metnaðarfullt markmið með hliðsjóð af nauðsynlegum undirbúniningi og því að greiðslujafnaðarmat Seðlabankans lá ekki fyrir. „En nú er okkur ekkert að vanbúnaði að taka næstu skref í uppboðsmálinu sem unnið er að samkvæmt ráðgjöf prófessors Pauls Klemperer, sem þykir vera sá fremsti í heiminum við gerð uppboðsskilmála. Strax að því afstöðnu finnst mér rétt að við skýrum frá því hvernig við tökum næstu skref.“
Varðandi flot krónunar segir Bjarni að það verði til staðar þjóðarhagsvarúðartæki sem muni muni draga úr áhættu fyrir þjóðarbúið samfara spákaupmennsku með gjaldmiðilinn. „Þar er ég einkum að horfa til stórra afleiðuviðskipta eða skammtímafjárfestinga vegna vaxtamunar. Ég tel að fjármálaumhverfið muni sýna því fullan skilning að eðlilegt sé að koma í veg fyrir að hægt sé að spila grimmt á vaxtamuninn eða ólíka þróun einstakra gjaldmiðla, með þeim hætti að það geti skaðað efnahaglegan stöðugleika í landinu. Það væri óábyrgt að grípa ekki til ráðstafana til þess að sporna við slíku.
Mér finnst þetta vera aðskildir hlutir: Almenn gjaldeyrishöft eins og við vorum með í gamla daga, síðan fjármagnshöft eins og við höfum verið með núna án þess að hafa truflað verulega daglegt líf alls almennings í landinu, og svo í þriðja lagi afnám slíkra fjármagnshafta en með einhvers konar þjóðhagsvarúðartækjum sem almenningur og öll almenn viðskiptastarfsemi ætti að vera ósnert af.“
Sameiginlegur gjaldmiðill gert stöðuna verri
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í október var samþykkt ályktun um að kanna ætti aðra möguleika en krónu sem framtíðargjaldmiðil. Í viðtalinu í ViðskiptaMogganum er Bjarni spurður hvort hann sé sammála því? „Þetta var ekki mikil breyting frá gildandi ályktun og ég er ekki á móti því að kanna til fulls kostina í stöðunni líkt og ályktað var um. En það verður að vera hluti umræðunnar um gjaldmiðilinn hver ávinningurinn hefur verið á undanförnum árum að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil og sjálfsákvörðunarvald um svo marga hluti. Hvernig hefði staða okkar verið á árinu 2008 ef við hefðum hvort tveggja verið með evru og inni í nýja bankaregluverki Evrópusambandsins sem vildi hafa það þannig að evrópska fjármálaeftirlitið ætti síðasta orðið? Við hefðum hvorki fengið nauðsynlegan lánastuðning án þess að sæta samevrópskum skilyrðum, né hefði það verið leyft að endurreisa innlenda bankakerfið eingöngu. Það er algerlega skýrt að evrópska fjármálaeftirlitið hefði aldrei samþykkt neyðarlögin, né það að við skildum eftir innstæður í erlendum útibúum við endurreisn bankakerfisins.
Með sameiginlegan gjaldmiðil að auki hefði þetta reynst okkur banvænn kokteill á sínum tíma og við hefðum lent í verri stöðu en þeir sem áttu í mestum erfiðleikum í hruninu 2008-2009. Með því að vera með fullt vald yfir endurreisn bankakerfisins og okkar eigin gjaldmiðil, þá gátum við tekið ákvörðun um það að ríkisvæða ekki skuldir einkaaðila, láta gjaldmiðilinn tapa verðgildi, setja á fjármagnshöft og endurreisa bankakerfið með þeim hætti sem við gerðum, þ.e.a.s. að skera frá erlendu starfsemina.“