Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að gert sé ráð fyrir því fyrstu greiðslum inn á ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar ríkisins á þarnæsta ári. Vandinn verði ekki leystur með öðrum hætti en að "setja inn marga milljarða á ári til að fresta þess að sjóðurinn tæmist, ella munum við sitja uppi með 20 milljarða greiðslu á ári eftir 10 ár". Þetta kemur fram í viðtali við Bjarna í ViðskiptaMogganum í dag.
Samtals eru skuldbindingar umfram eignir hjá B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga (LH) tæplega 460 milljarðar króna. Allir fjármunir sjóðanna munu verða uppurnir árið 2030 og eftir það falla greiðslur til sjóðsfélaga beint á ríkissjóð.
Verði ekkert að gert verður upphæðin sem þarf að greiða um 28 milljarðar króna til að byrja með en fara síðan lækkandi áratugina á eftir. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, sem lagt var fram í september, segir: „Í uppsiglingu er því mikið vandamál fyrir ríkissjóð ef ekkert verður að gert.“
Engin önnur leið fær en að greiða inn milljarða
Bjarni segir í viðtalinu að það sé engin önnur leið til að taka á því stóra ófjármagnaða gati sem sé á B-deildinni en að koma fram með greiðsluáætlun. "Í langtímaáætlun okkar í vor birtum við fyrstu áform um inngreiðslur á skuldbindingum í B-deildinni og gerum við ráð fyrir fyrstu greiðslum á þarnæsta ári. Í tengslum við samkomulagið um lífeyrismálin munum við koma fram með áætlun fyrir A- og B-deildina. Vandi B-deildar verður ekki leystur með öðrum hætti en að setja inn marga milljarða á ári til þess að fresta því að sjóðurinn tæmist, ella munum við sitja uppi með 20 milljarða króna greiðslu á ári eftir 10 ár".
Bjarni hafði áður sagt, í viðtali við Morgunblaðið í mars, að greiðslurnar myndu hefjast á næsta ári, 2016. sagði í blaðaviðtali í mars síðastliðnum að greiðslurnar myndu hefjast á næsta ári.
Ekkert greitt eftir hrunið
Ófjármagnaðar lífeyrisskuldbindingar hins opinbera hafa verið risastórt vandamál í lengri tíma. Árið 1997 var A-deild LSR stofnuð. Hún byggir á stigakerfi þar sem sjóðsfélagi ávinnur sér réttindi miðað við greidd iðgjöld. Kerfið byggir á sjóðssöfnun. Þ.e. LSR safnar iðgjöldum, ávaxtar þau og greiðir út í samræmi við áunnin réttindi. Ef sjóðurinn á ekki fyrir þeim hleypur ríkið undir bagga.
Á sama tíma var eldra kerfi sjóðsins, hin svokallaða B-deild, lokuð fyrir sjóðsfélögum. Í henni ávinna sjóðsfélagar sér tvö prósent réttindi á ári miðað við fullt starf. Reglur LH eru áþekkar B-deildinni. Þetta kerfi byggir að mestu á gegnumstreymi fjármagns, og einungis að hluta til á sjóðssöfnun. Ástæða þess að kerfið var lagt niður var sú að það blasti við að það gæti ekki staðið undir sér. Því var settur plástur á sárið og lokað á nýliðun í B-deildina. Það breytir því ekki að henni blæðir enn mikið. Það var alltaf morgunljóst að ríkið myndi þurfa að greiða háar fjárhæðir með þessu gamla kerfi.
Þess vegna ákvað Geir H. Haarde, þáverandi fjármálaráðherra, árið 1999 að ríkissjóður skyldi hefja greiðslur til B-deildar LSR og LH umfram lagaskyldu. Markmiðið var að milda höggið sem framtíðarkynslóðir skattgreiðenda myndu þurfa að þola vegna þess og koma í veg fyrir að sjóðirnir tæmdust.
Árið 2008, eftir hrunið, var þessum viðbótargreiðslum hins vegar hætt. Þá hafði ríkissjóður, frá árinu 1999, alls greitt 90,5 milljarða króna inn á útistandandi skuld sína við B-deild LSR og LH. Um síðustu áramót var sú fjárhæð, uppfærð með ávöxtun sjóðanna, orðin 231,8 milljarðar króna. Því er ljóst að greiðslurnar skiptu verulegu máli. Ef ekki hefði komið til þessara greiðslna væru sjóðirnir tómir og allar greiðslur féllu nú þegar á ríkissjóð.
Kjarninn fjallaði ítarlega um málið í fréttaskýringu í byrjun október.