Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, ætlar að leggja fram frumvarp á þingi um að útvarpsgjaldið verði óbreytt á næsta ári en hefur ekki lagt til að lífeyrisskuldbindingum verði lyft af Ríkisútvarpinu (RÚV).
Hann getur þó ekki gefið vilyrði um að útvarpsgjaldið verði óbreytt þar sem fjárveitingarvaldið sé hjá Alþingi.
Í skýrslu um RÚV, sem kynnt var fyrir viku síðan, segir m.a. að áætlanir RÚV, sem fyrirtækið vinnur eftir, geri ráð fyrir því að það fái hærra útvarpsgjald en gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi ársins og að lán vegna lífeyrisskuldbindinga hverfi úr efnahag RÚV. Gangi þessar forsendur ekki eftir er rekstur RÚV eins og fyrirtækið er rekið í dag ósjálfbær.
Hefur ekki lagt til að lífeyrisskuldbindingum verði lyft
Kjarninn beindi fyrirspurn til Illuga um hvort stjórn eða stjórnendur RÚV hefðu fengið vilyrði fyrir því frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um að útvarpsgjald verði óbreytt og að lán vegna lífeyrisskuldbindinga verði tekið yfir af ríkinu?
Í svari frá Sigríði Hallgrímsdóttur, aðstoðarmanni Illuga, segir að ráðherrann hafi lýst því yfir opinberlega síðastliðið vor að hann hygðist leggja fram frumvarp á þingi um að útvarpsgjaldið yrði óbreytt á næsta ári. Síðan þá hafi hann ítrekað þá stefnu sína. „Ekkert vilyrði er hægt að gefa, þar sem fjárveitingarvaldið er hjá Alþingi. Menntamálaráðherra hefur ekki lagt til að lífeyrisskuldbindingum verði lyft af Ríkisútvarpinu, en hann hefur vakið athygli á því hversu þungur baggi sú skuldbinding er á stofnuninni.“
Útvarpsgjaldið sem rennur að mestu til RÚV var lækkað um síðustu áramót, úr 19.400 krónum í 17.800 krónum. Um næstu áramót á að lækka það aftur í 16.400 krónur, samkvæmt framlögðum fjárlögum.
Bæði Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar og þingmaður Framsóknarflokksins, og Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar og samflokksmaður Illuga, hafa sagt opinberlega að þau séu á móti því að fallið verði frá fyrirhugaðri lækkun útvarpsgjalds. Þau telja einnig að það sé ekki meirihluti á þingi fyrir þeirri aðgerð.
Morgunblaðið segir Illuga hafa gefið vilyrði fyrir meira fé
Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag segir að viðmælendur blaðsins telji augljóst að Illugi hafi gefið Magnúsi Geir Þórðarssyni útvarpsstjóra vilyrði fyrir meira fjármagni þegar hann tók við starfi útvarpsstjóra í janúar 2014. Þar segir að áætlað sé að tap á rekstri RÚV á næsta rekstrarári verði 54 milljónir króna.
Stjórn RÚV sendir frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem því var hafnað að til standi að reka fyrirtækið með halla á næsta ári. Þar segir: "Fréttir Morgunblaðsins og mbl.is þess efnis, sem birst hafa í dag eru ekki réttar. Skýrt kemur fram í tilkynningu RÚV til Kauphallar þann 30.október sl. að áætlanir RÚV geri ráð fyrir rekstrarafgangi á yfirstandandi rekstrarári, rétt eins og á nýliðnu rekstrarári. [...]Ekki er gert ráð fyrir tapi í áætlunum stjórnar og stjórnenda RÚV. Væntingar stjórnar byggjast, líkt og margoft hefur komið fram, á því að útvarpsgjald lækki ekki frekar á næsta ári sem er í samræmi við það sem menntamálaráðherra hefur gefið fyrirheit um. Gangi þau áform ráðherra ekki eftir þá er ekki um annað að ræða en að skera niður þjónustu Ríkisútvarpsins til að tryggja hallalausan rekstur. Því er rangt sem segir í fyrirsögn Morgunblaðsins og mbl.is „Spá miklum halla á RÚV“.
Segja Ingva Hrafn hafa hætt vegna stuðningsleysis
Í Morgunblaðinu var einnig haft eftir heimildarmanni blaðsins að Ingvi Hrafn Óskarsson, sem hætti skyndilega sem formaður stjórnar RÚV í upphafi viku, hafi komist að þeirri niðurstöðu að „hann nyti ekki lengur nægjanlegs stuðnings innan Sjálfstæðisflokksins til að fara þá leið í rekstri stofnunarinnar sem marka átti með nýjum útvarpsstjóra“. Ingvi Hrafn var einn fulltrúa Sjálftæðisflokksins í stjórninni.
Ingvi Hrafn og Guðlaugur Þór hafa áður tekist á opinberlega um fjármál RÚV. Fyrir tæpu ári, þegar miklar deilur stóðu einnig yfir um fjármál RÚV, skrifaði Ingvi Hrafn harðorða grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni „Rökþrot þingmannsins?“ þar sem hann rést gegn fullyrðum Guðlaugs Þórs um fjármál RÚV.
Þar skrifaði Ingvi Hrafn m.a.: „Vandinn er hins vegar sá að á undanförnum vikum hefur Guðlaugur ítrekað ferið fram með staðlausa stafi um fjármál Ríkisútvarpsins og beitt fyrir sig útúrsnúningum sem hvergi snerta kjarna málsins. Hann verður að sætta sig við að á það sé bent“.