Arion banki og Íslandsbanki, ásamt fimm lífeyrissjóðum og einkafjárfestum, hafa stofnað Undirbúningsfélag Verðbréfamiðstöðvarinnar hf. sem vinnur að undirbúningi að stofnun nýrrar verðbréfamistöðvar á Íslandi til að sjá um rafræna eignaskráningu verðbréfa. Lífeyrissjóðirnir sem að verkefninu koma eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður verkfræðingua, Gildi lífeyrissjóður, Sameinaði lifeyrissjóðurinn og Almenni lífeyrissjóðurinn.
Félagið stefnið að því að sækja um starfsleyfi á fyrri hluta ársins 2016 og hefja rekstur í kjölfarið. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Undirbúningsfélagi Verðbréfamiðstöðvarinnar. Félagið hefur ráðið til sín Einar Sigurjónsson til að leiða uppbyggingu félagsins en Einar starfaði áður sem framkvæmdastjóri Verðbréfaskráningar Íslands hf.
Hin nýja verðbréfamiðstöð mun fara í samkeppni í útgáfu, vörslu og uppgjörs á verðbréfum í samkeppni við Nasdaq verðbréfaskráningu, sem er í dag eina verðbréfaskráningin sem er með starfsleyfi til að stunda miðlæga skráningu, vörslu og uppgjör rafrænna verðbréfa fyrir útgefendur þeirra.
Í Morgunblaðinu í síðustu viku var greint frá því að þótt starfsemi í tengslum við rafræna eignaskráningu verðbréfa sé umfangsmikill þá sé hún fjarri því sem hún var fyrir bankahrun. Miklir vaxtamöguleikar séu á markaðnum á komandi árum.