Eitt mest aðkallandi vandamálið sem steðjar að mannkyninu vegna hlýnunar jarðar er hækkun yfirborðs sjávar um allan heim vegna bráðnunar jökla og hafíss. Ef ekkert verður að gert mun hitastig jarðar að öllum líkindum vera fjórum gráðum hærra árið 2100 en það var fyrir iðnbyltingu. Komi til þess munu margar af stærstu borgum í heimi sökkva í sæ.
Markmið loftslagsráðstefnunnar í París í desember (COP 21) er að komast að bindandi samkomulagi allra aðildarlanda um minni losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030. Hjá Sameinuðu þjóðunum (SÞ)hefur verið samið um að tveggja gráðu hlýnun til ársins 2100 sé sanngjörn, en það er hins vegar ákvörðun um að sökkva strætum borga sem standa lágt eins og Hong Kong, Melbourne, Vancouver og Washington D.C.
Gangi verstu spár eftir þá búa 7,8 milljónir manna nú á svæði sem verður undir sjávarmáli árið 2100. Það er ef yfirborð sjávar hækkar um meira en tvo metra vegna hlýnunar jarðar. Hækki yfirborð sjávar um aðeins 0,2 metra þá er gert ráð fyrir að 1,3 milljón manns muni þurfa að flytja inn til lands.
Í aðdraganda COP 21 áttu allar aðildarþjóðir að loftslagsráðstefnu SÞ að skila eigin markmiðum í stefnumótun sinni í loftslagsmálum. Nú þegar hafa nær allar þjóðirnar skilað gögnum. Samkvæmt útreikningum og áætlunum skrifstofu SÞ um loftslagsmál í Bonn munu þessi markmið aðeins duga hálfa leið að markmiðinu um að halda hlýnun jarðar undir tveimur gráðum árið 2100. Allt lítur út fyrir að hlýnunin verði um 2,7 gráður verði ekkert að gert.
Líkön Climate Central og Surging Seas sýna hvaða svæði eru í mestri hættu. Líkanið af Reykjavík er kannski ekki fullkomið en líklega yrðu stræti miðborgarinnar undir sjávarmáli árið 2100 ef hlýnun jarðar verður ekki beisluð. Landfræðileg staða Reykjavíkur er hins vegar þannig að hér risi að öllum líkindum land ef Grænlandsjökull minnkar verulega.
Hér að neðan má sjá myndbönd og kort byggð á líkönum Climate Central og Surging Seas.
Washington D.C. árið 2100
Rio de Janeiro árið 2100
London árið 2100
Uppfært: Skilja mátti á fréttinni að 7,8 milljónir manna myndu búa á svæði sem verður undir sjávarmáli árið 2100. Það hefur verið lagað.