Fjármögnunarkostnaður ríkissjóðs hefði verið um 4 prósent meiri ef hann hann hefði fjármagnað sig með verðtryggðum ríkisbréfum, en þetta jafngildir 35 milljörðum króna miðað við núverandi verðlag, að því er fram kemur í sérriti með Markaðsupplýsingum sem Seðlabanki Íslands gaf út í dag.
Þessi niðurstaða byggir á rannsókn Kjartans Hanssonar, starfsmanns Lánamála ríkisins um hagkvæmni óverðtryggðrar ríkisbréfaútgáfu á árunum 2003 til 2014. Í rannsókninni var könnuð útkoman af því að hafa gefið út óverðtryggð bréf í stað verðtryggðra á árunum 2003 til 2014.
Orðrétt segir í niðurstöðuorðunum í sérritinu, að óverðtryggð útgáfa hafi verið ódýrari fyrir ríkissjóðs, en taka þurfi tillit til þess tímabils þar sem áhrifa gætti vegna hrunsins.
„Niðurstaðan af þessari rannsókn er sú að óverðtryggðar útgáfur voru ódýrari fjármögnun fyrir ríkisjóð en ef þær hefðu verið verðtryggðar fyrir tímabilið 2003 til 2014 um sem nemur 35 ma.kr.á föstu verðlagi. Þegar tímabilið er brotið upp í tvö tímabil þ.e. 2003 til 2008 og 2008 til 2014 kemur í ljós að ábatinn af fyrra tímabilinu er 28 ma.kr. en 7 ma.kr. fyrir síðara tímabilið. Þessi niðurstaða er ekki í takt við ýmsar sambærilegrar erlendar rannsóknir sem hafa komist að öndverðri niðurstöðu. Hafa ber í huga að rannsóknin horfir í baksýnisspegilinn á tímabil sem hefur verið mjög sérstakt í sögu þjóðar og ber þá helst að nefna bankahrunið 2008. Verðbólgan sem kom í kjölfarið leiddi til þess að útistandandi óverðtryggðar útgáfur báru lægri raunvexti en verð- tryggðar útgáfur. Það er rétt að hafa í huga að þessi niðurstaða þýðir ekki endilega að óverðtryggðar útgáfur haldi áfram að vera hagkvæmari fjármögnunarleið fyrir ríkissjóð. Tíminn einn mun leiða það í ljós og því verður áhugavert að endurtaka þessa rannsókn eftir nokkur ár,“ segir í sérritinu.