Íbúar í póstnúmeri 200 í Kópavogi greiddu hæstu samanlögðu upphæðina í útvar á árinu 2014. Það er í fyrsta sinn á undanförnum áratug sem póstnúmer 112 (Grafarvogur) í Reykjavík er ekki það póstnúmer sem greiðir hæsta útsvarið. Íbúar á Akureyri greiða þriðja hæsta útsvarið. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra fyrir fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um málið.
Í svarinu er farið yfir útsvar greitt til sveitafélaga og eftir póstnúmerum innan þeirra. Reykvíkingar greiddu langhæstu samanlögðu upphæðina í útsvar, enda langfjölmennasta sveitarfélag landsins. Alls greiddu Reykvískir borgarar 60,7 milljarða króna í útsvar í fyrra. Það er helmingi hærri upphæð í krónum talið, þ.e. án tillits til verðbólgu, en þeir gerðu árið 2005. Vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu, hefur hækkað um 68 prósent á umræddu tímabili auk þess sem Reykvíkingum hefur fjölgað umtalsvert.
Frá árinu 2005 og út árið 2013 greiddi íbúar póstnúmers 122 (Grafarvogs) hæstu samanlögðu upphæðina í útsvar sem eitt póstnúmer greiddi á landinu öllu. Það munaði litlu að Grafarvogur héldi þeim titli á síðasta ári, þegar hverfið greiddi 8.563 milljónir króna í útsvar. Póstnúmer 200, sem nær yfir grónasta hluta Kópavogs, tók hins vegar fram úr Grafarvogi í fyrra. Íbúar þess greiddu samtals 8.570 milljónir króna í útsvar í fyrra, eða sjö milljónum krónum meira en Grafarvogsbúar. Í þriðja sæti yfir útsvarsgreiðendur eru íbúar Akureyrarkaupstaðar, en þeir greiddu samtals 8.464 milljónir króna í útsvar í fyrra.
Eldri hluti Hafnarfjarðar, póstnúmer 220, er síðan i fjórða sæti með útsvarsgreiðslur upp á 8.123 milljónir króna á árinu 2014. Þar á eftir kemur póstnúmer 105 í Reykjavík (Hlíðar og nágrenni), með 7.925 milljónir króna, Garðabær með 7.662 miilljónir króna og 101 (Miðborg Reykjavíkur) með 7.625 milljónir króna.