Af 982 stjórnarmönnum í 270 stærstu fyrirtækjum landsins, eru 665 karlar og 317 konur. Meðalaldur karlanna í stjórn er tæplega 55 ár en kvennanna um 50 ár. Þetta þýðir að konur eru 32 prósent stjórnmanna í stærstu fyrirtækjum landsins, en karlar 68 prósent.
Þetta sýna upplýsingar sem Kjarninn tók saman úr gagnagrunni upplýsinga um íslenskt atvinnulíf, sem Keldan er með á vef sínum.
Dæmigerður íslenskur stjórnarmaður í íslensku atvinnulífi er karlmaður á sextugsaldri, en staða kvenna hefur þó batnað hratt frá fyrri árum, einkum og sér í lagi eftir að lögfest var að konur þyrftu að vera að lágmarki 40 prósent stjórnarmanna. Nokkuð er í að það hlutfall náist, sé mið tekið af framangreindum upplýsingum, sem koma úr nýjustu ársreikningum fyrirtækjanna.
Samkvæmt listanum sem er á vef Keldunnar er Icelandair Group stærsta fyrirtæki landsins, sé miðað við rekstrartekjur, og stöðu mála í fyrra. Samtals námu rekstrartekjur fyrirtækisins ríflega 141 milljarði króna. Þar á eftir koma Marel með 110 milljarða í rekstrartekjur og Alcoa Fjarðaál með tæplega 95 milljarða.
Hæsti meðalaldur stjórnarmanna hjá skráðu fyrirtæki á Ísland er hjá HB Granda en þar er meðalaldurinn 62,4 ár, en kynjahlutfall í stjórn er 40 prósent konur og 60 prósent karlar, sem er í samræmi við fyrrnefnd lög.