Sólfar Studios, íslenskt fyrirtæki sem framleiðir efni fyrir sýndarveruleika, hefur náð sér í tveggja milljóna evra, um 280 milljóna króna, fjármögnun frá norrænum og asískum fjárfestum. Þetta er önnur fjárfestingin sem fyrirtækið nær í síðan að það var stofnað fyrir ári síðan. Á meðal þeirra sem fjárfestu í þessari lotu eru Shanda Group, Tianqiao Chen´s private investment group, hinn íslenski Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og finnsku sjóðirnir VCs Inventure og Reaktor Ventures. Frá þessu var greint í dag á Slush ráðstefnunni sem nú stendur yfir í Finnlandi. Slush er alþjóðleg ráðstefna í leikjaiðnaði og sýndarveruleika.
Fyrirtækið hafði þegar náð í 500 þúsund dali, um 65 milljónir króna, í englafjárfestingu frá ýmsum aðilum. Um helmingur þeirrar upphæðar kom frá innlendu fjárfestunum Investa og Vilhjálmi Þorsteinssyni og hinn helmingurinn frá erlendum aðilum, aðallega frá Finnlandi. Hluti englafjárfestanna tóku einnig þátt í þeirri fjármögnunarlotu sem nú er lokið.
Aftur í bílskúrinn til að skapa sýndarveruleika
Forsvarsmenn Sólfars, þeir Reynir Harðarson og Kjartan Pierre Emilsson, voru í viðtali við Kjarnann í apríl síðastliðnum þar sem þeir sögðu frá Sólfars-verkefninu. Þar kom fram að þeir Reynir, sem var einn stofnenda og listrænn stjórnandi CCP, Kjartan, áður yfirleikjahönnuður Eve Online og framkvæmdastjóri CCP í Sjanghæ árum saman, og Þorsteinn Högni Gunnarsson, sem var yfir viðskiptaþróun hjá CCP, hafi ákveðið að hætta hjá íslenska tölvuleikjarisanum og „fara aftur í bílskúrinn“ sumarið 2014.
Í október 2014 stofnuðu þeir fyrirtækið Sólfar Studios sem framleiðir efni fyrir sýndarveruleika. Flestir tengja sýndarveruleikabyltinguna við Oculus Rift, tæki sem lítur úr eins og voldug skíðagleraugu sem færa notendur inn í sýndarveruleikaveröld. Það er erfitt að lýsa því með orðum fyrir þeim sem ekki hafa prófað hversu mikil breyting sýndarveruleikatól sem eru í þróun eru frá þeirri upplifun sem tölvuleikjanotendur fá við að spila leiki í dag. Auðveldast er kannski að segja að spilaranum líður eins og hann sé inni í leiknum, í stað þess að vera að spila hann af skjá.
Það er að miklu að keppa. Greiningarfyrirtæki spá því að innan fárra ára verði sýndarveruleikaleikjamarkaðurinn 30-40 milljarða dala markaður. Það gera 4.000-5.550 milljarða króna. Fyrirtæki þarf ekki stóran hluta af þeirri köku til að verða mjög arðbært.
Í viðtalinu greindu þeir frá því að á teikniborðinu væri að ná í meira til að tryggja reksturinn næstu árin. Þeirri lotu er nú lokið.
Í gær greindi Sólfar Studios frá því að fyrirtækið ætli, í samstarfi við íslensku tæknibrellufyrirtækið RVX, að bjóða upp á sýndarveruleikareynslu af því að vera á Everest-fjalli á helstu sýndarveruleikavettvanga á næsta ári. RVX vann meðal annars tæknibrellur fyrir stórmynd Baltasars Kormáks, Everest, sem var frumsýnd fyrr á þessu ári.