Dæmigerður leigjand á almennum leigumarkaði eyðir 24,3 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæðiskostnað. Tæplega 19 prósent leigjanda vörðu meira en 40 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði. Meðalgreiðslubyrði leigjenda sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hefur hækkað hratt frá árinu 2007. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands.
Byrði húsnæðiskostnaðar hjá þeim sem bjuggu í eigin húsnæði með áhvílandi húsnæðislán hefur hinsvegar lækkað umtalsvert frá árinu 2006, ef árið 2011 er undanskilið. Árið 2014 varði hinn dæmigerði húsnæðiseigandi með húsnæðislán 16,3 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði. Einungis 6,1 prósent eigenda húsnæðis greiðir meira en 40 prósent af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði, og flokkast með íþyngjandi húsnæðiskostnað.
Íþyngjandi húsnæðiskostnaður er sérstaklega tíður hjá tekjulægsta fimmtungi landsmanna. Ein af hverjum fjórum sem tilheyrir því tekjubili greiðir 40 prósent eða meira af ráðstöfunartekjum sínum í húsnæði. Á næsta tekjubili fyrir ofan er það hlutfall 7,1 prósent.