Samanlagður hagnaður bankanna, á þeim sjö árum sem þeir hafa starfað, nemur 436,5 milljörðum króna. Það er upphæð sem nemur tæplega fjórðungi úr árlegri landsframleiðslu Íslands, sem nam tæplega tvö þúsund milljörðum króna í fyrra.
Kjarninn fjallaði ítarlega um stöðu bankakerfisins, eins og hún var um síðustu áramót, en þá var samanlagður hagnaður bankanna 370 milljarðar króna.
Mestur hagnaður á fyrstu níu mánuðum ársins var hjá Arion banka en hagnaður hans nam 25,4 milljörðum króna. Íslandsbanki hagnaðist um 16,7 milljarða króna á sama tíma og Landsbankinn um 24,4 milljarða króna. Stór hluti hagnaðar Arion banka skýrist af sölu hlutabréfa í fyrirtækjum í óskyldum rekstri, en hagnaður grunnrekstrar nam 13,4 milljörðum króna.
Samanlagt eigið fé bankanna nemur nú 619 milljörðum króna. Eigið fé Landsbanka Íslands, þar sem íslenska ríkið er langsamlega stærsti eigandinn með 98 prósent hlut, nemur 252,2 milljörðum króna, og hjá Arion banka er eigið fé 174,8 milljarðar króna. Íslandsbanki er síðan með eigið fé upp á 192 milljarða króna, miðað við stöðu mála eins og hún var í lok september mánaðar.
Eiginfjárhlutfall bankanna er hátt í alþjóðlegum samanburði. Hjá Landsbankanum er það tæplega 30 prósent, hjá Arion banka 23,5 prósent og Íslandsbanka 29,2 prósent.
Mikið eigið fé hefur safnast upp hjá bönkunum, frá stofnun, enda hafa þeir ekki greitt út mikinn arð til hluthafa og eignasöfn verið uppfærð til hækkunar frá því sem var við stofnun.
Landsbankinn hefur þó greitt umtalsverðan arð til ríkisins, en arðgreiðslur bankans, vegna síðasta árs, nema 24 milljörðum króna. Arion banki, sem er 87 prósent í eigu kröfuhafa Kaupþings og 13 prósent í eigu ríkisins, hefur ekki greitt út mikinn arð til eigenda frá stofnun, og ekki Íslandsbanki heldur, í samhengi við heildar eigið fé, en samþykkt var þó að greiða níu milljarða í arð til hluthafa vegna ársins í fyrra.
Kröfuhafar Glitnis eiga 95 prósent hlut í bankanum, og ríkið fimm prósent. Það mun breytast á fyrri hluta næsta árs, að öllum líkindum, þar sem ríkið mun eignast bankann að öllu leyti en þau umskipti á eignarhaldi eru hluti af stöðugleikaframlagi kröfuhafa vegna uppgjörs slitabúa hinna föllnu banka, í samhengi við áætlun um losun fjármagnshafta.