Hagstofa Íslands gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði 4,3 prósent á þessu ári, 3,5 prósent á árinu 2016 og á bilinu 2,5 til 2,8 prósent á árunum 2017 til 2019. Einkaneyslu mun aukast umtalsvert öll umrædd ár. Hagstofan telur að hún muni aukast um 4,4 prósent í ár, um 4,7 prósent á næsta ári, 4,2 prósent árið 2017 og þrjú prósent árin 2018 og 2019. Þá mun fjöldi starfandi manna á Íslandi í ár verða sá mesti í sögunni og slá „met ársins 2008".
Þetta kemur fram í nýrri þjóðarhagsspá að vetri.
Hagstofan spáir því að útflutningur muni aukast allan spátímann og að vel muni ganga í rekstri helstu útflutningsatvinnuvega Íslands. Þeir eru sjávarútvegur, álframleiðsla og ferðaþjónusta. Innflutningur mun hins vegar aukast enn meira vegna „kröftugrar neyslu og fjárfestingar“. Hagstofan telur þó að viðskiptajöfnuður verði ekki neikvæður á spátímabilinu.
Verðbólgan eykst hratt á næsta ári
Þá spáir Hagstofan að verðbólga far yfir verðbólgumarkmiðum Seðlabanka Íslands, sem eru 2,5 prósent, strax á næsta ári, en hún hefur verið undir þeim í tæp tvö ár. Í spánni segir að „lágt heimsmarkaðsverð á eldsneyti og innfluttri hrávöru, gengisstyrking krónunnar, niðurfelling vörugjalda og lítil alþjóðleg verðbólga“ stuðli að lágri verðbólgu á Íslandi þrátt fyrir aukinn kostnaðarþrýsting vegna kjarasamninga. Þetta þýðir á einfaldara máli að innlend verðbólga er há, greiningaraðilar hafa metið hana á 4-5 prósent, en innflutt verðbólga er svo lítið að hún heldur þeirri innlendu í skefjum.
Spáin gerir ráð fyrir að verðbólga verði 1,7 prósent í ár en aukist hratt á næsta ári og verði 3,2 prósent. Árið 2017 á hún að fara í 3,7 prósent en að fara lækkandi eftir það og á að nálgast verðbólgumarkmiðin á síðari árum spátimans.
Mikil kaupmáttaraukning næstu tvö ár
Kaupmáttur launa mun aukast mjög mikið á árunum 2015 og 2016 vegna launahækkanna, lítillar verðbólgu og lægri skatta og gjalda. Þá segir í spánni að aukin umsvif í atvinnulífinu muni kalla á aukið vinnuafl. „Fjölgun starfa og ársverka stefnir í að verða milli 3-4 prósent árið 2015 sem er svipað og var árið 2013. Fjöldi starfandi árið 2015 slær met ársins 2008“.