Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra kynnti í dag aðgerðir sem miða að því að fækka því flóttafólki sem leitar til Danmerkur. Ráðherrann sagði að ástandið væri þannig að ekki yrði hjá því komist að grípa til aðgerða. „Ef við gerum það ekki missum við þetta allt úr böndunum,” sagði ráðherrann á fundi með fréttamönnum. Fyrir kosningarnar sl. sumar var það eitt að loforðum flokks forsætisráðherrans að draga úr straumi flóttafólks og hælisleitenda til landsins.
„Ef okkur tekst það ekki er það algjört fíaskó,” sagði Lars Løkke fyrir kosningar. Á fréttamannafundinum í dag upplýsti ráðherrann að á þessu ári hefðu komið fleiri hælisleitendur til landsins en allt árið í fyrra og straumurinn hefði verið stríðastur undanfarnar vikur.
Tillögur í 34 liðum
Tillögurnar sem kynntar voru í dag miða allar að því, eins og ráðherrann sagði, að gera það minna aðlaðandi og eftirsóknarvert fyrir flóttafólk og hælisleitendur að horfa til Danmerkur. Ráðherrann sagði að allir vissu að flóttafólk velti því fyrir sér hvar best væri að bera niður. „Við höfum gert vel við flóttafólk og hælisleitendur, betur en margir aðrir og kannski stundum of vel” sagði ráðherrann. Alls eru í tillögum stjórnarinnar talin upp 34 atriði sem segja má að flest miði að því að herða skilyrðin fyrir hælisumsækjendur og fjölskyldur þeirra og. Styrkir til matarkaupa verða lækkaðir,reglur um leyfi til að fá langtímadvalarleyfi verða hertar, skráningarreglur verða strangari en verið hefur o.fl o.fl.
Forsætisráðherrann sagði að allt væri þetta innan þeirra alþjóðlegu reglna og samninga sem Danmörk hefði skuldbundið sig til að fylgja. Hann sagði jafnframt að stjórnin hefði ákveðið að leyft yrði að hýsa hælisleitendur tímabundið í tjöldum, sem ekki hefur verið leyfilegt fram til þessa en jafnframt væri unnið að því að útvega húsnæði og nefndi sérstaklega herinn í því sambandi.
Lars Løkke sagði að nýjustu tölur sem hann hefði undir höndum segðu að nú væru um það bil þrettán þúsund hælisleitendur í landinu, þeir væru dreifðir um allt land. Hann var á fréttamannafundinum spurður hvort til stæði að koma á sérstöku eftirliti við landamærin, líkt og Svíar hafa gert. Lars Løkke sagði að slíkt væri ekki ætlunin „en ástandið breytist frá degi til dags og maður veit aldrei hvað morgundagurinn ber í skauti sér,” bætti hann við.