Greiningardeild Arion banka spáir því að ársverðbólga muni hækka úr 1,8 prósent í 2,3 prósent, þegar Hagstofa Íslands birtir niðurstöðu mælinga 26. nóvember næstkomandi. „Við spáum að verðlag í nóvember, mælt sem vísitala neysluverðs (VNV), standi óbreytt frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir hækkar ársverðbólgan úr 1,8% í 2,3%. Hækkun ársverðbólgunnar má helst rekja til þess hve mikil lækkun var í nóvember á síðasta ári (0,5% lækkun verðlags) vegna mikillar lækkunar á bensínverði og verði flugfargjalda. Við spáum að helsta hækkun í nóvember verði á húsnæðisliðnum (+0,10% áhrif á VNV). Aðrir liðir lækka og þá einna helst ferðaliðurinn (-0,04% áhrif á VNV), föt og skór (-0,03% áhrif á VNV) og bensín (-0,02% áhrif á VNV). Einnig lækka tómstundir og menning (-0,02% áhrif á VNV) og matarkarfan (-0,02% áhrif á VNV)," segir í spá greiningardeildarinnar.
Seðlabanki Íslands hækkaði á dögunum stýrivexti í 5,75 prósent, eða um 0,25 prósentustig. Peningastefnunefnd bankans rökstuddi ákvörðunina öðru fremur með því, að innlendar verðbólguhorfur hefðu versnað mikið að undanförnu, einkum og sér í lagi vegna mikilla launahækkana sem væru framundan, sem væru langt umfram framleiðniaukningu í hagkerfinu.