Francois Hollande, forseti Frakklands, segir Íslamska ríkið (ISIS) bera ábyrgð á árásunum í París í gær, þar sem að minnsta kosti 128 manns létu lífið og um 100 manns særðust alvarlega. Hann segir árásirnar, sem eru mannskæðustu hryðjuverkaárásir í Evrópu síðan í Madríd 2004, sem huglausum og sem stríðsaðgerð (e. act of war). Hollande segir að Frakkland muni verja sig í þessum aðstæðum. Frá þessu er greint á vef The Guardian.
Ráðist var á París, höfuðborg Frakklands, í gærkvöldi. Talið er að árásarmennirnir hafi verið átta og eru þeir allir látnir, sjö þeirra með því að sprenga sjálfa sig í loft upp. Vitorðsmenn ganga þó enn lausir. Árásamennirnir drápu að minnsta kosti 128 manns og særðu um 200 í viðbót, þar af um 100 alvarlega. Ráðist var á fólkið með hríðskotabyssum og sprengjum við þjóðarleikvang Frakka, á börum, veitingastöðum og í tónleikasal í París. Allir staðirnir áttu það sameiginlegt að vera staðir þar sem fólk fer til að skemmta sér. Til að horfa á fótbolta, drekka, borða, hlusta á tónlist. Og samkvæmt fregnum flestra miðla heims var árásunum ekki beint gegn neinum sérstökum einstaklingum. Árásarmennirnir voru að reyna að myrða sem flesta.
Árásirnar, sem virðast þaulskipulagðar, áttu sér stað á sex mismunandi stöðum víðsvegar um París, samkvæmt The Guardian.Tvær sjálfsmorðsárásir voru gerðar á Stade de France, þjóðarleikvang Frakka í norðurhluta borgarinnar, á meðan að landslið Frakka lék æfingaleik við Þýskaland. Fleiri sprengjur sprungu við leikvanginn.
Flestir saklausir borgarar féllu hins vegar á tónleikastaðnum Bataclan, þar sem bandaríska hljómsveitin Eagles of Death Metal var með tónleika. Þar létust 87 manns, samkvæmt The Guardian.