Íslamska ríkið (ISIS) hefur sent frá sér yfirlýsingu á frönsku þar sem samtökin lýsa yfir ábyrgð á árásunum í París í gærkvöldi. Þar segir að átta „bræður" með sprengjubelti og byssur hafi ráðist á skotmörk í hjarta Parísar í gær. Skotmörkin hafi verið valin sérstaklega í aðdraganda árásanna „Stade de France á meðan að landsleikur gegn Þýskalandi stóð yfir sem hinn heimski (e. imbecile) Francois Hollande horfði á; Bataclan that sem hundruð skurðgoðadýrkenda hafi safnast saman í siðspilltri veislu auk annarra skotmarka í tíunda, ellefta og tólfta hverfis". The Guardian greinir frá.
Í yfirlýsingunni segir einnig að Frakkland sé lykilskotmark samtakanna. Landið hafi dirfst að móðga spámanninn Múhameð, gortað sig af því að hafa barist gegn Islam í Fraklandi og notað flugvélar sínar til að ráðast á múslima í Íslamska ríkinu (e. Caliphate) hafi ekki hjálpað Frökkum á nokkur hátt á „illa þefjandi strætum Parísar". Árásirnar séu einungis byrjunin á „stormi".
Ráðist var á París, höfuðborg Frakklands, í gærkvöldi. Talið er að árásarmennirnir hafi verið átta og eru þeir allir látnir, sjö þeirra með því að sprenga sjálfa sig í loft upp. Vitorðsmenn ganga þó enn lausir. Árásamennirnir drápu að minnsta kosti 128 manns og særðu um 200 í viðbót, þar af um 100 alvarlega. Ráðist var á fólkið með hríðskotabyssum og sprengjum við þjóðarleikvang Frakka, á börum, veitingastöðum og í tónleikasal í París. Allir staðirnir áttu það sameiginlegt að vera staðir þar sem fólk fer til að skemmta sér. Til að horfa á fótbolta, drekka, borða, hlusta á tónlist. Og samkvæmt fregnum flestra miðla heims var árásunum ekki beint gegn neinum sérstökum einstaklingum. Árásarmennirnir voru að reyna að myrða sem flesta.
Árásirnar, sem virðast þaulskipulagðar, áttu sér stað á sex mismunandi stöðum víðsvegar um París, samkvæmt The Guardian.Tvær sjálfsmorðsárásir voru gerðar á Stade de France, þjóðarleikvang Frakka í norðurhluta borgarinnar, á meðan að landslið Frakka lék æfingaleik við Þýskaland. Fleiri sprengjur sprungu við leikvanginn.
Kjarninn fjallaði ítarlega um atburði gærdagsins í fréttaskýringu í morgun.