Donald Trump, sem sækist eftir því að verða forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, sagði í gær að ef fórnarlömb hryðjuverkaárásanna sem framin voru í París á föstudagskvöld hefði verið leyft að bera vopn þá hefði niðurstaða ástandsins orðið allt önnur. „Þegar þú horfir á París, strangasta byssulöggjöf í heimi, París, engin var með byssur nema vondu karlarnir. Enginn var með byssur. Enginn. Þeir skutu þau bara eitt af öðru og svo brutust þeir inn [öryggissveitir frönsku lögreglunnar] og það varð mikill skotbardagi og á endanum drápu þeir hryðjuverkamennina.“ Ummælin lét Trump falla á kosningarfundi í Beaumont Texas í gær. Hann nýtur sem stendur mest stuðnings allra frambjóðenda repúblikana til að hljóta útnefningu sem forsetaframbjóðandi flokksins þótt að hratt hafi dregið úr forskoti Trump undanfarnar vikur. Forysta hans á Ben Carson mælist nú innan skekkjumarka.
Þar sagði hann einnig: „Þú getur sagt það sem þú vilt, en ef þau hefðu haft byssur, ef okkar fólk hefði haft byssur, ef þau mættu bera þær[...]þá hefðu þetta verið allt aðrar aðstæður.“ Greint er frá þessu á vef Business Insider.
129 manns látnir og á fjórða hundrað særðir
Alls létust 129 manns í árásunum á París á föstudagskvöld. 352 eru slasaðir, þar af 99 alvarlega slasaðir. Fórnarlömb árásanna eru frá að minnsta kosti 15 mismunandi löndum. Sjö hryðjuverkamenn liggja í valnum, sex eftir að hafa sprengt sig í loft upp. Íslamska ríkið (ISIS) hefur lýst yfir ábyrgð á árásunum sem voru framkvæmdar af þremur hópum sem skipulögðu þær utan Frakklands.
Ráðist var á fólkið með hríðskotabyssum og sprengjum við þjóðarleikvang Frakka, á börum, veitingastöðum og í tónleikasal í París. Allir staðirnir áttu það sameiginlegt að vera staðir þar sem fólk fer til að skemmta sér. Til að horfa á fótbolta, drekka, borða, hlusta á tónlist. Og samkvæmt fregnum flestra miðla heims var árásunum ekki beint gegn neinum sérstökum einstaklingum. Árásarmennirnir voru að reyna að myrða sem flesta.
Einn árásarmannanna hefur verið nafngreindur, hann hét Omar Ismail Mostefai og var 29 ára gamall Frakki.Nokkur fjöldi mögulegra vitorðsmanna hefur verið handtekinn í Belgíu og yfirvöld í Frakklandi, Belgíu, Grikklandi og Þýskalandi vinna nú saman að því að kortleggja hverjir hinir árásarmennirnir voru og hvert tengslanet þeirra var. Grísk stjórnvöld hafa staðfest við The Guardian að fréttir um að einn árásarmannanna hafi komið til Evrópu frá Sýrlandi í gegnum Grikkland séu ekki réttar.
Segir galið að taka við sýrlenskum flóttamönnum
Á fundi sínum í gærkvöldi gagnrýni Trump líka Barack Obama Bandaríkjaforseta harðlega og sagði að leiðtogi landsins vissi ekkert hvað hann væri að gera. Þar vísaði hann sérstaklega í ákvörðun Obama um að taka við flóttamönnum frá Sýrlandi.„Við erum öll með hjarta og við viljum öll að séð sé um fólk, en vegna þeirra vandræða sem landið okkar er í, að taka við 250.000, sem sumir hverjir munu eiga í vandræðum, miklum vandræðum, er bara galið. Við hlytum að vera galin. Hræðilegt.“
Samkvæmt CNN liggur ekki fyrir hvaðan Trump fékk þá hugmynd að Bandaríkin ætli að taka við 250.000 flóttamönnum. Í september var tilkynnt að Bandaríkin ætluðu að taka við að minnsta kosti tíu þúsund flóttamönnum á þessu ári.