Anonymous-samtökin eru að undirbúa hrinu netárása á Íslamska ríkið í kjölfar hryðjuverkanna í París á föstudaginn sem urðu 129 manns að bana. Frá þessu greindi maður með Guy Fawkes-grímu í myndbandi sem hlaðið var á vefinn í gær. Frá þessu er meðal annars greint á vef Reuters.
Maðurinn með grímuna segir skæruliða Íslamska ríkisins sem frömdu voðaverkin í París vera „meindýr“ og að Anonymous-samtökin myndu elta þá og finna. „Fyrir þessar árásir verður að hefna,“ segir hann á frönsku.
„Við erum að hefja okkar stærstu aðgerðir allra tíma gegn ykkur. Þið getið búist við mörgum vefárásum. Við lýsum yfir stríði. Undirbúið ykkur undir það.“ Maðurinn með grímuna lýsir því ekki nánar hvað árásirnar munu hafa í för með sér eða hvaða vefi samtökin hyggjast ráðst á. „Við gleymum ekki og við fyrirgefum ekki.“
Kjarninn greindi frá því í dag að Anonymous-samtökin hefðu ráðist á þekktar íslenskar vefsíður vegna hvalveiða Íslendinga og lýst yfir ábyrð á því á Twitter. Árásirnar ollu miklum truflunum á netþjónustu stjórnarráðsins, Símans og Mbl.is.