Samtals hafa 112 lögaðilar eða einstaklingar verið kærðir til lögreglu af gjaldeyriseftirliti Seðlabanka Íslands í 23 málum vegna meintra brota á gjaldeyrislögum. Engin mál voru kærð í fyrra og engin mál hafa verið kærð það sem af er þessu ári, að því er fram kemur í svari við fyrirspurn Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, til Bjarna Benediktssonar, efnahags- og fjármálaráðherra.
Enn hefur enginn verið dæmdur sekur fyrir dómi fyrir brot á gjaldeyrislögum, en samtals eru 471 mál skráð inn í kerfi Seðlabanka Íslands, en 77 mál eru enn til rannsóknar. ´
Þá hefur 28 málum verið lokið með stjórnvaldssekt eða sátt, en 25 . Samtals hafa 650 þúsund krónur komið í ríkissjóð vegna stjórnvalssekta en 59,3 milljónir vegna sáttagreiðslna. Þar af komu 21,4 milljónir vegna greiðslna á þessu ári og 37,2 milljónir árið 2014.
Bankaráðs Seðlabanka Íslands hefur samþykkt að láta gera athugun á framkvæmd gjaldeyrisreglna bankans, meðal annars vegna nýlegrar niðurstöðu umboðsmanns Alþingis þar sem atriði í framkvæmdinni voru gagnrýnd, og lagaleg óvissa sögð vera fyrir hendi.
Stjórn Samherja hefur einnig hvatt bankaráðið til að rannsaka starfsemi gjaldeyriseftirlitsins, en eins og fram hefur komið þá töldu embætti sérstaks saksóknara og skattrannsóknarstjóra ekki tilefni til þess að grípa til aðgerða gegn Samherja eða starfsmönnum fyrirtækisins, en gjaldeyriseftirlitið kærði meint brot til sérstaks saksóknara. Málið hófst með umfangsmiklum húsleitum á Akureyri og í Reykjavík vorið 2012.