Franska lögreglan hefur handtekið sextán manns vegna rannsóknar á hryðjuverkunum í París á föstudagskvöld, en í þeim létust 129 og 352 særðust, og af þeim eru um 80 enn á gjörgæslu. Húsleitir hafa verið gerðar á 104 stöðum og sext vopn hafa verið haldlögð, segir í frétt Reuters, en tveir til viðbótar voru síðan handteknir skammt frá Aachen, nálægt landamærum Þýskalands og Belgíu, en það var þýska lögreglan sem stóð að þeim aðgerðum. Samtals hafa sjö verið handtekin í Þýskalandi vegna gruns um að koma að skipulagningu hryðjuverka, af því er segir í frétt Reuters.
Aðgerðir frönsku lögreglunnar í landinu eru sagðar fordæmalausar að umfangi, en hluti sérsveita hersins hefur aðstoðað sérsveitir lögreglunnar við að elta vísbendingar sem upplýsa málin. Þá er einnig talin mikil hætta á frekari árásum, samkvæmt fréttum.
Frakkar og Rússar hafa nú tekið höndum saman um hernaðaraðgerðir gegn íslamska ríkinu, en í tveimur árásum sem beindust að rússneskum og frönskum borgurum létust samtals 353. Rússnesk farþegaflugvél í Egyptalandi fórst eftir að hún var sprengd í loft upp, og allir sem voru um borð, 224 að tölu, létu lífið.
Vladímir Pútín, forseti Rússlands, og Francois Hollande, forseti Frakklands, hafa báðir sagt að samtökunum verði engin miskunn sýnd, og hafa heitið því að herða aðgerðir gegn samtökunum, einkum með loftárásum.