Í byrjun árs 1995 voru Íslendingar 266.978, árið 2005 293.577 og í byrjun þess árs var fjöldinn kominn upp í 329.100. Fjölgunin á áratug var 35.523 íbúar, eða sem nemur rúmlega öllum íbúum Kópavogs. Í alþjóðlegum samanburði er Ísland með allra fámennustu ríkjasamfélögum heimsins, en heildaríbúafjöldi er svipaður og í Coventry á Englandi og í Harlem hverfinu í New York, þar sem búa 335 þúsund manns.
Stöðug fjölgun
Samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofu Íslands, sem birt var í morgun, mun stöðug fjölgun Íslendinga halda áfram á næstu árum, en gert er ráð fyrir að eftir 50 ár, það er árið 2065, þá verði Íslendingar orðnir 437 þúsund talsins, samkvæmt svonefndri miðspá. Samkvæmt lágspánni, þá miðað við aðrar forsendur, verða Íslendingar 372 þúsund á þeim tímapunkti, og samkvæmt háspánni 513 þúsund. Samkvæmt miðspánni verða Íslendingar 342 þúsund árið 2019, eða sem nemur tæplega sjö þúsund íbúum fleiri en nú.
Breytilegar forsendur að baki spá
Spáafbrigðin byggja á mismunandi forsendum um hagvöxt, frjósemishlutfall og búferlaflutninga. Fæddir verða fleiri en dánir á hverju ári spátímabilsins í mið- og háspá, að því er segir í umfjöllun Hagstofunnar. Samkvæmt lágspánni verða dánir hins vegar fleiri en fæddir á hverju ári frá og með árinu 2045. Meðalævi karla og kvenna við fæðingu mun halda áfram að lengjast. Nýfæddar stúlkur árið 2015 geta vænst þess að verða 83,5 ára gamlar en nýfæddir drengir 79,5 ára. Stúlkur sem fæðast árið 2065 geta vænst þess að verða 88,5 ára en drengir 84,3 ára.
Borgarsamfélög stækka
Sé mið tekið af miðspá Hagstofunnar er gert ráð fyrir að Íslendingum fjölgi um 56 prósent á næstum 50 árum. Gera má ráð fyrir að helsti þunginn í fjölguninni verð á höfuðborgarsvæðinu, eins og verið hefur til þessa, en ríflega 70 prósent íbúa þjóðarinnar búa nú á höfuðborgarsvæðinu. Flestar alþjóðlegar spár gera ráð fyrir að borgarsamfélög muni stækka hlutfallslega mun meira en sem nemur hlutfallslegri íbúafjölgun, sem þýðir að borgir og stærri bæjarfélög stækka, en að sama skapi fækkar í minni byggðarlögum.