Starfshópur réttindanefndar Landssamband lífeyrissjóða (LL) leggur til að viðmiðunaraldur fyrir töku ellilífeyris hækki um þrjú ár á 24 árum og að greiðslur til lífeyrisþega lækki hóflega. Þetta kemur fram í nýrri útgáfu Fjármála, vefriti Fjármálaeftirlitsins (FME).
Ítarlega er fjallað um stöðu lífeyriskerfisins í ritinu, en í grein Jóns Ævars Pálmasonar, sérfræðings FME, kemur fram að „vart megi bíða“ með að taka á vanda lífeyriskerfisins, þar sem skuldbindingar vaxi hratt, ekki síst vegna þess að lífaldur lengist stöðugt.
Heildarstaða
allra lífeyrissjóða var neikvæð um
620 ma. kr. sem jafngildir 13,1% af
heildarskuldbindingum þeirra. Opinberir
sjóðir með beina eða óbeina ábyrgð
launagreiðanda báru mestan hluta þess
halla. Heildarstaða lífeyrissjóða með
ábyrgð launagreiðenda var samtals
neikvæð um 623 ma. kr. og heildarstaða
lífeyrissjóða án ábyrgðar var samtals
jákvæð um þrjá milljarða króna, að því er segir í ritinu.
„Það er undir hverjum
lífeyrissjóði komið að ákveða endanlega
hvernig samþykktabreytingum verður
hagað.
Sjóðfélagar lífeyrissjóða, þar sem
ellilífeyrisréttindi eru tilgreind í krónutölu,
munu upplifa það sem skerðingu ef
lækka þarf áunnin lífeyrisréttindi. Jafnvel
þótt réttindin hafi verið veitt á grundvelli
forsendna sem óvíst er að standast til
lengri tíma. Í ljósi undangenginna ára er
skiljanlegt að sjóðfélögum hrjósi hugur
við frekari skerðingum og fáir vilja vera
boðberar tíðindanna. Það má þó vart
bíða með að takast á við vandann.
Í umræðunni er mikilvægt að hafa
hugfast að réttindaávinnsla hefur verið
hærri en ef hún væri grundvölluð á
spá um aukna ævilengd. Fremur en að
kalla breytinguna skerðingu þá má líta
svo á að um leiðréttingu sé að ræða,“ segir í greininni í Fjármálum.