Nánari markmið og áherslur Íslands í loftslagsmálum verða ekki kynnt fyrr en árið 2016, eftir að samningaferlið milli Íslands og Evrópusambandsins (ESB) hefur verið mótað. Frá þessu var skýrt í umhverfisráðuneytinu í dag. Ísland fylgir landsmarkmiðum Evrópusambandsins í loftslagsmálum um 40 prósent minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2030 miðað við árið 1990. Ísland mun því fylgja Evrópusambandinu og Noregi á loftslagsráðstefnunni í París í desember.
Aðeins hafa verið óformleg samskipti á milli Íslands og Evrópusambandsins um það hvernig samið verður innan Evrópu um losunarheimildir og því óvíst hversu mikið Ísland þarf að draga úr losun til ársins 2030. Noregur hefur sama samkomulag við Evrópusambandið og semur um losunarheimildir eftir ráðstefnuna í París. Í krafti aðildar Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu þá fylgjum við sömu verkferlum og ESB í þessum efnum.
Flest ríki Evrópusambandsins eru aðilar að Kyoto-bókuninni um losunarheimildir gróðurhúsalofttegunda og er líklegt að svipað fyrirkomulag verði haft innan ESB, á Íslandi og í Noregi. Jafnvel verði hægt verði að versla með losunarkvóta milli landa. Á þessum vangaveltum eru fyrirvarar; koma verður í veg fyrir að losunarheimildir safnist saman á fárra höndum og stuðli því að ójöfnum vexti efnahags milli landa innan sambandsins, svo dæmi sé tekið.
Loftslagsráðstefnan í París fer fram dagana 30. nóvember til 11. desember. Ísland mun standa fyrir og taka þátt í mörgum viðburðum til hliðar við ráðstefnuna sjálfa. Opinber sendinefnd fulltrúa úr fjórum ráðuneytum hér á landi munu fjalla um loftslagssamninginn fyrir Íslands hönd. Fyrir utan ráðstefnusalina hefur fjöldi fólks boðað komu sína. Fulltrúi Kjarnans mun fylgjast með gangi mála og flytja fréttir af ráðstefnunni.